Dótturfélag Sjóvár, SJ fasteignir, hefur keypt 70 þúsund fermetra af skrifstofuhúsnæði fyrir 162 milljónir evra (15 milljarða íslenskra króna) í belgísku borginni Ghent, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Fyrirtækið keypti sex skrifstofubyggingar í nágrenni München-borgar í Þýskalandi fyrir nærri átta milljarða króna, eða 85 milljónir evra, fyrr á þessu ári.Friðjón Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestingarsviðs Sjóvár, staðfesti viðskiptin í samtali við Viðskiptablaðið í gær.

Hann sagði fyrirtækið vera að vinna að svipuðu verkefni í Þýskalandi að virði um 100 milljónir evra (9,2 milljarðar króna) og að um 6-7 fasteignir væri að ræða í jafn mörgum borgum.

Bandaríski fjárfestingarbankinn Bear Stearns fjámagnaði kaupin í Belgíu og hefur sölutryggt lánsfjármögnun að virði 153 milljónir evra til að styðja við kaupin, samkvæmt upplýsingum frá bankanum. Íslenska fyrirtækið Aquila Venture Partners hafði umsjón með viðskiptunum og mun einnig hafa yfirumsjón með framtíðarrekstri fjárfestingarinnar á fjárfestingartímabilinu.

Skrifstofuhúsnæðið í Belgíu, sem kallast The Southgate Office Complex, er að að mestu leigt til langs tíma til belgíska ríkisins og opinberra stofnana, eða um 77% af húsnæðinu. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að ekki sé hægt að hugsa sér traustari aðila og benda á að áhættan af viðskiptunum sé svipuð og að kaupa belgísk ríkisskuldabréf en að arðsemin sé miklu meiri.