Sjóvá hefur, í gegnum dótturfélag sitt SJ fasteignir, keypt sex skrifstofubyggingar í nágrenni München-borgar í Þýskalandi fyrir nærri átta milljarða króna, eða 85 milljónir evra. "Þetta er einn fyrsti samningur sem við gerum í fasteignabransanum," segir Friðjón Rúnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri fjárfestingasviðs Sjóvár.

Sjóvá leggur til eigið fé í viðskiptunum, alls um 6,2 milljónir evra (570 milljónir króna) en Bear Stearns International bankinn sér um fjármögnun upp á 78,8 milljónir evra. Þar er bæði um hefðbundin veðlán að ræða og millilagsfjármögnun (e. mezzanine). Aquila Venture Partners, sem Sjóvá á hlut í, átti viðskiptahugmyndina.

Sjóvá hefur hingað til ekki einbeitt sér að fasteignaviðskiptum á erlendri grundu. "Tryggingafélag er með ríflegar heimildir til að fjárfesta í fasteignum og skuldabréfum tengdum fasteignaviðskiptum og þetta er einfaldlega hluti af því að dreifa áhættunni, að fikra okkur aðeins inn á þetta svið," segir Friðjón. Sjóvá keypti nýlega íbúðir í London, ásamt samstarfsaðila sem gerði þær upp og segir Friðjón að þær séu að flestallar seldar. Að auki hefur félagið ýmsa kosti til skoðunar í Þýskalandi, Belgíu og Bandaríkjunum.

"Á Þýskalands- og Belgíusvæðinu hefur fasteignamarkaðurinn ekki tekið við sér í sama mæli og í nágrannalöndunum og við sjáum tækifæri í því. Svo eru ákveðin svæði í Þýskalandi sem eru í uppbyggingu og þess vegna aðlaðandi. Þetta fer líka eftir því hvaða eignir liggja undir hverju félagi sem við fjárfestum í -- þar sækjumst við helst eftir fjárfestingum í nýju húsnæði sem ekki þarfnast viðhalds í bráð. Þá skiptir miklu máli hverjir leigjendur eru og hversu langir leigusamningarnir eru," segir Friðjón.