Tryggingafélagið Sjóvá-Almennar er á meðal hluthafa í Högum eftir hlutafjárútboð sem lauk í vikunni. Fram kemur í tilkynningu frá Högum að tryggingafélagið hafi keypt 888.889 hluti í félaginu á genginu 13,5 krónur á hlut. VIrði eignahlutarins er því ekki mikið, 12 milljónir króna.

Sjóvá átti ekkert fyrir í Högum.

Tilkynningaskyldan kemur til vegna setu Ernu Gísladóttur, sem nýverið keypti bílaumboð Ingvars Helgasonar og B&L af Íslandsbanka, í stjórnum Haga og Sjóvár.

Fram kom eftir útboð Arion banka á 30% hlut í Högum að áttföld eftirspurn var eftir hlutabréfum í fyrirtækinu eða fyrir 40 milljarða króna. Af þeim sökum verður hlutur þeirra sem skráðu sig fyrir eignahlut í félaginu skertur.

Greining Íslandsbanka benti á í Morgunkorni sínu á föstudag að fjárfestar hafi fengið aðeins lítinn hlut þeirra fjárhæðar sem þeir skráðu sig fyrir Hæsta úthlutun í tilboðsbók var 90 milljónir króna. Þau gátu mest hljóðað upp á 500 milljónir. Það sama hafi við um þá fjárfesta sem gátu boðið frá 100 þúsund króna til 25 milljóna. Hæsta úthlutun í þeim flokki hafi numið 1,5 milljónum króna.

Hagar-samstæðan verður skráð í Kauphöllina á fimmtudaginn og verður það fyrsta nýskráning á hlutabréfamarkað hér síðan í mars árið 2008 þegar Skipti, móðurfélag Símans var skráð á markað.

Hagkaup Skeifunni.
Hagkaup Skeifunni.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)