Tryggingarfélagið Sjóvá hefur áhuga á að nýta sterka eiginfjárstöðu félagsins til útrásar á sviði fasteigna, sagði Þór Sigfússon forstjóri í samtali við Viðskiptablaðið í gær, en í gegnum fasteignafélagið SJ fasteignir hefur Sjóvá keypt fasteignir erlendis fyrir tugi milljarða króna á árinu.

Nýlega keypti SJ fasteignir í Hong Kong fyrir tæpa sjö milljarða króna. Í apríl síðastliðnum keypti félagið fasteignir í Munchen fyrir um átta milljarða og í ágúst keypti fyrirtækið fasteignir í belgísku borginni Ghent fyrir um um 15 milljarða.

Þór segir SJ fasteignir hafa á síðustu misserum verið að byggja upp fasteignasafn með uppkaupum á traustum fasteignum víðsvegar um heiminn. "Félagið er fyrst og fremst að nýta styrka eiginfjárstöðu sína í verkefnin. Sjóvá er að nýta sér þennan möguleika með það fyrir augum að auka enn á áhættudreifingu fjárfestingasafns síns. Útrás í fjárfestingum á sviði fasteigna er leið sem við teljum að treysta muni fjáhag félagsins til lengri tíma litið," segir hann.

Tap hefur verið að vátryggingastarfsemi íslenskra tryggingarfélaga um nokkurð skeið og hefur hagnaður af rekstri félaganna einkum verið af fjárfestingastarfsemi. Hagnaður Sjóvár á fyrstu sex mánuðum ársins jókst í rúma fjóra milljarða króna úr 1,7 milljörðum. Félaginu hefur tekist að skera niður kostnað verulega en á tímabilinu var þó enn tap af vátryggingastarfeminni, sem dróst saman í 270 milljónir úr 1,12 milljörðum miðað við sama tímabil árið 2005.

Þór hefur sagt að viðsnúningur sé væntanlegur á vátrygginastarfseminni og í gær tók hann fram að fasteignaviðskiptum félagsins sé ætlað að auka áhættudreifinguna enn frekar. Gengishagnaður af hlutabréfaviðskiptum getur fljótt breyst í gengistap, segja sérfræðingar.

Sjóvá hefur unnið náið með íslenska fasteignafjárfestingafélaginu Aquila Venture Partners (AVP), sem hefur haft milligöngu í fasteignaviðskiptum Sjóvár. Fyrirtækið hefur einnig umsjón með eignasafni SJ fasteigna. Aðspurður um samstarf SJ fasteigna við AVP og Milestone segir Þór að það hafi átt mjög gott og náið samstarf við þessi félög við mat og framkvæmd verkefnanna.

"Tengslin á milli AVP, Milestone og Sjóvá hafa reynst félaginu einstaklega dýrmæt enda hafa fulltrúar AVP haft veg og vanda að uppsetningu og framkvæmd kaupanna sem þú nefndir að framan. AVP hefur mikla reynslu á þessu sviði og þeir hafa reynst okkur sannkallaðir haukar í horni," segir Þór.

Að sögn Þórs hafa SJ fasteignir fyrir reglu að meta hvert og eitt verkefni út frá eigin forsendum, í stað þess að einblína á einstaka landsvæði. Fyrirtækið hafi í náinni samvinnu við AVP og Milestone leitað uppi arðbær verkefni með stöðugu fjárstreymi á mörkuðum þar sem fasteignaverðsþróun hafi verið verið hagfelld.

"Eðli máls samkvæmt er það góð regla að ná fram sem mestri áhættudreifingu og í því augnmiði hefur félagið leitast við að dreifa fjárfestingunum þess á milli Evrópu, Asíu og Bandaríkjanna. Það liggur í augum uppi að SJ fasteignir hefðu ekki ráðist í þessar fjárfestingar nema vegna þess að félagið teldi þær arðbærar. Í eðli sínu eru fasteignir hins vegar langtímafjárfesting." segir Þór.

Fjármögnun verkefna hjá SJ fasteingum hefur verið með ýmsu móti og hafa margir aðilar komið að henni. Bandaríski bankinn Bear Stearn hefur til dæmis verið félaginu innan handar í nokkrum verkefnum. Að sögn Þórs hefur félaginu reynst auðvelt að fjármagna þau verkefni sem það hefur tekið sér fyrir hendur og það sé í góðu sambandi við nokkrar erlendar fjármálastofnanir. Hann segir félagið einnig hafa lagt umtalsvert fé í verkefnin.

Aðspurður um framtíðina segir Þór hana vera óskrifað blað, en bætir við að félagið muni halda áfram að skoða álitleg fjárfestingarverkefni, hvort sem þau séu á sviði fasteignaverkefna eða í gegnum aðrar ávöxtunarleiðir.

"Eiginfjárstaða félagsins er sterk og félagið mun sæta færis hingað til sem endranær og mun vafalaust taka þátt í fleiri arðbærum fasteignaverkefnum ef færi gefast. Í þeim efnum er hins vegar ekkert klappað í stein," segir Þór.