Sjóvá og TrackWell hafa undirritað samstarfssamning um forvarnir, segir í tilkynningu.

Með samningnum ætla fyrirtækin að bjóða fyrirtækjum sem eru viðskiptavinir Sjóvá aðgang að flotastýringarþjónustunni TrackScape. Þjónustan felst í því að upplýsingum um staðsetningu og aksturslag ökutækja er safnað frá ökuritum sem settir eru í ökutæki viðskipavinarins.

Kerfið vinnur úr þessum upplýsingum skýrslur um ökulag og nýtingu farartækja.

Tilgangur Sjóvá með samstarfinu er að efla forvarnir. Með samningnum stuðlar Sjóvá að því að viðskiptavinir félagsins taki upp eftirlit með ökutækjum sínum og beiti markvissri flotastýringu til að bæta aksturslag og draga úr slysatíðni.

Annarskonar ábati fyrir viðskiptavini Sjóvá er lækkun á rekstrarkostnaði ökutækja svo ekki sé talað um bætta ímynd fyrirtækjanna.

Markmið Sjóvá er að draga úr tjónakostnaði auk þess að vera í forystu fyrir bættri umferðamenningu með breiðari þjónustu við sína viðskiptavini.

Markmið TrackWell er að TracScape verði leiðandi á sviði flotaeftirlits og flotastýringar á íslenskum markaði.