Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, hefur verið ráðinn sem nýr forstjóri hjá Sjóvá og tekur hann við af Þorgils Óttari Mathiesen, segir í tilkynningu frá félaginu.

Þór mun hefja störf hjá Sjóvá í desembermánuði, segir í tilkynningunni.

Þar segir einnig að Þorgils Óttar hafi keypt 40% hlut í fasteigna- og þróunarfélaginu Klasa og muni þess vegna láta af störfum sem forstjóri. Aðrir eigendur Klasa eru Sjóvá og Íslandsbanki.

Þór Sigfússon hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands frá árinu 2003 en áður gegndi hann stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra Norræna fjárfestingarbankans frá árinu 1998. Þór er 41 árs gamall og er hagfræðingur að mennt.

Þá hefur Sjóvá ráðið Helga Bjarnason tryggingastærðfræðing sem aðstoðarforstjóra félagsins. Helgi mun einkum sinna verkefnum tengdum vátryggingastarfsemi félagsins. Helgi hefur starfað undanfarin ár að uppbyggingu og rekstri KB-líftryggingar, nú síðast sem forstöðumaður vátryggingasviðs. Helgi er 36 ára gamall.

Fleiri breytingar hafa verið gerðar á framkvæmdastjórn Sjóvá sem verða kynntar nánar á næstu vikum, segir í tilkynningunni.