Sjóvá hefur undirritað samning við Skýrr um prentun á öllu útsendu efni tryggingafélagsins á sviði breytilegrar prentunar, einkum reikninga og fylgiseðla, segir í tilkynningu.

Þar segir að samningurinn sé nokkuð stór í sniðum, en Sjóvá sendir út á aðra milljón síðna á ári. Samhliða þessu hefur Sjóvá undirritað samning við Skýrr um aðgang að ökutækjaskrá í Upplýsingaheimum Skýrr.

"Skýrr bauð Sjóvá hagkvæma heildarlausn fyrir þessa prentþjónustu. Lausnin hefur ýmsa stóra kosti fyrir Sjóvá. Ferlið er til dæmis sérsniðið að þörfum okkar og Skýrr sér eftirleiðis um birtingu reikninga í netbönkum með tengingu við Reiknistofu bankana, ásamt PDF-þjónustu og nauðsynlegum XML-skeytasendingum milli fyrirtækjanna. Það skiptir okkur sömuleiðis miklu máli að hjá Skýrr er prentun og pökkun á einum stað og öll starfsemin gæða- og öryggisvottuð samkvæmt ISO 9001," segir Þór Sigfússon, forstjóri Sjóvár.

"Viðskiptavinir Skýrr á sviði prentunar eru mörg af öflugustu fyrirtækjum landsins í fjármálageiranum, verslun, viðskiptum og þjónustu, ásamt íslenska ríkinu, ýmsum sveitarfélögum og opinberum stofnunum. Þetta eru kröfuharðir viðskiptavinir, sem við leggjum mikinn metnað í að veita fyrsta flokks þjónustu. Sjóvá bætist nú í þennan góða félagsskap og við erum hreykin af samstarfi fyrirtækjanna," segir Þórólfur Árnason, forstjóri Skýrr.