Fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka hf. hefur verið falið að annast formlegt og opið söluferli á Sjóvá sem er í dag 90,7% í eigu SAT Eignarhaldsfélags og 9,3% í eigu Íslandsbanka hf.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka en fjárfestum gefst kostur á því að bjóða í allt að 100% hlutafjár Sjóvár.

Í tilkynningunni kemur fram að söluferlið verður opið öllum áhugasömum fjárfestum sem teljast fagfjárfestar samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti og geta sýnt fram á eiginfjárstöðu umfram 500 milljónir króna.

Áhugasamir fjárfestar þurfa að fylla út trúnaðaryfirlýsingu sem hægt er að nálgast á heimasíðu Íslandsbanka ásamt því að leggja fram nauðsynlegar upplýsingar og gögn sem staðfesta að ofangreind skilyrði séu uppfyllt. Í kjölfarið fá fjárfestar afhent frekari gögn um félagið.

„Seljandi áskilur sér þó rétt til þess að takmarka aðgang að söluferlinu þegar fyrir hendi eru lagalegar takmarkanir á því að fjárfestir eignist ráðandi hlut í félaginu, svo sem vegna samkeppnisreglna. Jafnframt er vakin athygli á því að samþykki Fjármálaeftirlitsins er skilyrði fyrir því að fjárfestir geti farið með virkan eignarhlut í tryggingafélagi,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að þeim fjárfestum sem leggja fram hæstu tilboðin og sýna fram á fjárhagslega burði til að standa við þau, verður boðið til áframhaldandi þátttöku í söluferlinu. Fá þeir þá aðgang að nánari upplýsingum um starfsemi og fjárhag fyrirtækisins.

Söluferlið hefst formlega mánudaginn 18. janúar kl. 10:00 með birtingu upplýsinga á vef Íslandsbanka á slóðinni www.islandsbanki.is/sjova2010 en tilboðum með fyrirvara um áreiðanleikakönnun, ber að skila í síðasta lagi mánudaginn 22. febrúar 2010, fyrir kl. 14:00.