Hagnaður af rekstri Sjóvár árið 2014 var 1.029 milljónir króna samanborið við 1.790 milljóna króna hagnað á sama tíma árið áður. Hagnaður fyrir skatta og afskrift óefnislegra eigna nam 1.698 milljónum í fyrra, en var 2.610 milljónir árið 2013. Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam jókst úr 1.354 milljónum árið 2013 í 1.472 milljónir í fyrra, en fjárfestingartekjur lækkuðu úr 2.191 milljónum í 1.297 milljónir á sama tíma. Tap af fjárfestingarstarfsemi nam 246 milljónum í fyrra, en árið 2013 var 792 milljóna króna hagnaður af fjárfestingarstarfsemi.

Samsett hlutfall samstæðunnar hækkaði úr 94,7% í 95,1%, tjónahlutfall hækkaði úr 65,1% í 69% og kostnaðarhlutfall lækkaði úr 25,0% í 23,6% á milli ára. Í lok síðasta árs nam eigið fé 17.810 milljónum króna, en var 16.781 milljónir ári áður. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar hækkaði úr 39,3% í 40,2%. Fjárfestingareignir námu 33.946 milljónum og jukust um 3,9 milljarða á milli ára. Arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli var 5,9% í fyrra, en var 11,9% árið á undan.

Í tilkynningu er haft eftir Hermanni Björnssyni forstjóra að góður hagnaður hafi verið af vátryggingarekstri Sjóvár og aukning frá fyrra ári. Ávöxtun fjárfestinga hafi hins vegar verið undir væntingum þar sem fjárfestingartekjur drógust saman um 900 milljónir á milli ára.

Hann segir að Sjóvá sé enn að styrkjast bæði í eignum og iðgjöldum og vaxa eigin iðgjöld um 6,3% milli ára. Tjónatíðnin hefur að sögn Hermanns aukist nokkuð en hún hafi verið innan þeirra eðlilegu sveiflna sem ávallt megi vænta í tryggingum. Einstök stærri tjón og tjón vegna veðurfars og vondrar færðar hafi þar töluverð áhrif, sér í lagi á síðustu vikum ársins. Þrátt fyrir þessa aukningu sé tjónahlutfallið sögulega lágt eða 69%. Kostnaður félagsins vegna ökutækjatjóna hefur vaxið og segir hann að áfram verði fylgst grannt með þeirri þróun.