124 milljóna króna tap varð af rekstri Sjóvá á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er talsverður viðsnúningur á milli ára því á sama ársfjórðungi í fyrra nam hagnaður féalgsins 617 milljónum króna.

Fram kemur í uppgjöri félagsins að tap fyrir skatta og afskrift óefnislegra eigna nam nam 16 milljónum króna. Á fyrsta ársfjórðungi í fyrra nam hagnaðurinn 863 milljónum króna. Þetta er verri afkoma en IFS Greining gerði ráð fyrir. Í afkomuspá fyrirtækisins var gert ráð fyrir 190 milljóna króna hagnaði fyrir afskriftir.

Hagnaður af vátryggingastarfsemi nam 318 milljónum króna borið saman við 265 milljóna króna hagnað á fjórðungnum í fyrra. Á sama tíma var 451 milljóna króna tap af fjárfestingastarfsemi á fyrsta ársfjórðungi sem er sambærilegt og í fyrra en þá nam hagnaðurinn 486 milljónum króna.

Í uppgjörstilkynningu er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár, að tapið skýrist af tapi á fjárfestingastarfsemi tryggingafélagsins.

„Við náðum markmiðum okkar um að auka iðgjöld að raunvirði og tjónahlutfall félagsins er hagfellt. Kostnaður er enn of hár en rekstrarkostnaður er yfirleitt hæstur á fyrsta fjórðungi. Hærri rekstrarkostnað má að hluta rekja til aukins sölu- og markaðskostnaðar en 2,9% raunvöxtur eigin iðgjalda var á fyrsta ársfjórðungi sem er ánægjuleg niðurstaða í miklu samkeppnisumhverfi,“ segir hann.

Þá kemur fram í uppgjörinu að ávöxtun á innlendum fjármálamarkaði var almennt slæm á fyrsta ársfjórðungi og afkoma félagsins á fjórðungnum því undir væntingum. Ræður þar mestu lækkun á verði ríkisskuldabréfa. Sveiflur á verðbréfamörkuðum eru miklar en fjárfestingarstefna félagsins miðar að því að ná stöðugri langtímaávöxtun.