Tap Sjóvár vegna riftunar á samningum fasteignaverkefnis í Macau, við Hong Kong, nemur um 1,460 milljónum í krónum talið, að sögn Guðmundar Arasonar, forstjóra SJ Fasteigna.

Hann segir að frá því í ágúst í fyrra hafi verið leitað að aðilum til að koma að fjármögnun verkefnisins. Það hafi þó ekki borið tilætlaðan árangur, segir hann, vegna sögu og ímyndar Íslands á Asíumarkaði.

Tilkynnt var um kaup SJ Fasteigna, dótturfélags Sjóvár, á umræddu fasteignaverkefni í nóvember 2006.

Guðmundur segist aðspurður ekki vita annað en að íslenska fjárfestingarfélagið Aquila Ventures Partners (AVP), sem síðar rann inn í Askar Capital, hafi átt frumkvæði að því að dótturfélag Sjóvár, SJ Fasteignir, fjárfesti í verkefninu. Öll þessi félög voru undir hatti Milestone, sem nú hefur fengið heimild dómstóla til að leita nauðasamninga.

Tilbúnar til innréttingar

Um er að ræða 68 lúxusíbúðir í risaturni í miðri Macau, sem samsett er af þremur eyjum, í nágrenni Hong Kong. Turninn er hluti af stærra fasteignaverkefni; fleiri lúxusíbúðum og verslunarmiðstöð á svæðinu. Fasteigna- og fjárfestingarfyrirtækin Shun Tak og Hongkong Land eru yfir öllu verkefninu sem er að mestu tilbúið. Þannig á einungis eftir að innrétta íbúðirnar sem Sjóvá vildi kaupa.

Verkefnið sem SJ Fasteignir gerði samning um síðla árs 2006 hljóðaði upp á um 782 milljónir Hong Kong dala, eða um 6,8 milljarða króna, að því er fram kom í tilkynningu frá félaginu á þeim tíma.

Guðmundur segir að þriðjungur þeirrar upphæðar hafi strax verið inntur af hendi, þ.e.a.s. rúmir tveir milljarðar íslenskra króna. Afganginn átti að greiða við afhendingu íbúðanna nú í júlí. Sem fyrr sagði hafi hins vegar ekki tekist að fjármagna afganginn.

Gengið hafi verið til samninga við Shun Tak og Hongkong Land um að rifta samningnum. Niðurstaðan hafi verið sú að þeir aðilar greiddu Sjóvá til baka upphæð sem nemur 610 milljónum króna. Það þýðir, segir Guðmundur, að félagið hafi tapað um 1,460 milljónum íslenskra króna á verkefninu.

Hefði íslenska krónan ekki veikst umtalsvert undanfarna mánuði hefði tapið hins vegar orðið mun meira í krónum talið.

Fleiri fasteignir til sölu

Guðmundur segir aðspurður að SJ Fasteignir eigi fleiri fasteignir svo sem í Þýskaland, Frakklandi og í Belgíu. Stærstu leigjendurnir séu belgíska ríkið og þýskir bankar. „Við höfum verið að reyna að selja," segir hann, spurður út í framhaldið.

Þær fasteignir sem tekist hafi að selja frá október hafi verið seldar með hagnaði.

Nánar má finna upplýsingar um fasteignaverkefnið í Macau hér.