Tryggingafélagið Sjóvá skilaði 472 m.kr. tapi á þriðja ársfjórðungi tapið tilkomið vegna neikvæðrar ávöxtunar af fjárfestingarstarfsemi félagsins upp á 946 m.kr en félagið hagnaðist af hefðbundinni vátryggingarstarfsemi um 499 m.kr. Á þriðja ársfjórðungi síðasta árs hagnaðist Sjóvá um 858 m.kr. Félagið hefur þó hagnast um 1.330 m.kr. á fyrstu níu mánuðum ársins en í fyrra nam hagnaðurinn 1.568 m.kr.

Heildartekjur af vátryggingarrekstri þriðja fjórðungs voru 4.332 m.kr. en voru 4.044 m.kr. á sama tímabili í fyrra og hækka því um 7,1% á milli ára. Tjón sem féllu á á félagið voru 3.013 m.kr. í samanburði við 2.843 m.kr. á sama tíma í fyrra og jukust því um 6%. Rekstrarkostnaður hækkaði um 1,4% á milli ára og var 819 m.kr.

Í tilkynningu með uppgjörinu er haft eftir Hermanni Björnssyni, forstjóra Sjóvár að neikvæð þróun verðbréfamarkaða orsaki tap ársfjórðungsins.

„Vátryggingareksturinn heldur áfram að styrkjast frá fyrra ári hvort sem litið er til þriðja ársfjórðungs eða fyrstu níu mánaða ársins. Samsett hlutfall fjórðungsins nemur 94,6%. Neikvæð þróun verðbréfamarkaða á þriðja ársfjórðungi gerði það hins vegar að verkum að 472 m.kr. tap varð á rekstri. Undanfarin ár hefur það verið afkoma fjárfestinga sem hefur borið uppi jákvæða afkomu,“ segir Hermann. Hann bætir þó við að ánægjulegt sé að vátryggingarrekstur skili góðri niðurstöðu á fyrstu níu mánuðum ársins. „Það er því ánægjulegt að vátryggingarekstur skili 884 m.kr. í afkomu fyrir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins sem er tæplega tvöföldun frá sama tíma í fyrra og endar samsett hlutfall í 99,3% á tímabilinu.“

Hermann segir jafnframt ekki að sé talin ástæða til að breyta afkomuhorfum þrátt fyrir tap á ársfjórðungnum. Í upphafi árs voru birtar horfur fyrir árið 2017 um að samsett hlutfall verði á bilinu 97-99% og að afkoma fyrir skatta verði umfram 2.500 m.kr. Ekki er talin ástæða til að breyta umræddum horfum en þó vert að benda á þær miklu sveiflur fjárfestingartekna sem orðið hafa á árinu,“ segir Hermann.