„Það er óvenjumikið af veggjalúsum í ár. Alveg töluverð aukning,“ segir Róbert Ólafsson, meindýraeyðir hjá Meindýravörnum Reykjavíkur. Hann segir að áður hafi útköll vegna veggjalúsa verið þrjú til fjögur á ári. Nú eru þau hinsvegar þrjú til fjögur í mánuði.

Veggjalúsina er auðvelt að greina, hún sést vel og veldur íbúum miklum óþægindum: „Veggjalýs sjúga úr manni blóð á nóttunni. Þær drekka tífalda þyngd sína í blóði, skríða svo til hliðar og fara aftur á stjá þegar þær þurfa meira blóð. Fólk fær einkenni um leið, vatnskennd bóla myndast við bitið og mikill kláði fylgir þessu.“

En hvernig berst veggjalúsin inn á heimili fólks?

„Fólk sem dvelur á gistiheimilum í útlöndum er í mikilli hættu. Fólk þarf að passa að setja ferðatöskurnar alls ekki á rúmið á gistiheimilinu þegar pakkað er ofan í tösku. Og þegar fólk kemur heim til sín aftur er mjög mikilvægt að pakka upp úr töskunni inni í þvottahúsi og setja allt beint í þvott. Síðan er gott að frysta ferðatöskuna eða jafnvel bara henda henni. Þetta er ekkert grín.“

Frekari upplýsingar um veggjalús og myndir af henni má finna hér .