Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, tókust á um gjaldmiðlamálin á Alþingi í dag í ljósi þess að verðbólga hefur ekki mælst hærri í rúmlega sjö ár hér á landi, og er nú 4,3%, yfir 4% efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs Seðlabankans.

Verðbólgan hæst á Íslandi innan EES

Þorgerður hóf ræðu sína að benda á að á Íslandi væri hæst verðbólga allra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins. „Flest Norðurlöndin eru með 0,5% verðbólgu, nema Noregur er með 1,5% verðbólgu og norska krónan ekki tengd við evruna. Ferðaþjónustulöndin í Suður-Evrópu er við eða undir 0% verðbólgu. Krónan er því enn og aftur að valda verðbólgu hér heima við,“ sagði Þorgerður.

Tilraunir Seðlabankans til að stöðva fall krónunnar hafi dregið úr möguleikum hans til peningaprentunar sem leiði af sér lakari lánskjör fyrir ríkissjóð og skerði svigrúm íslenskra stjórnvalda til mótvægisaðgerða.

„Þetta verðbólguskot er enn ein áminningin um hve vitaónýt íslenska krónan er, hve djúpstæð vandamál hún skapar á endanum fyrir heimilin og fyrir fyrirtækin til skemmri en líka til lengri tíma,“ sagði Þorgerður. Krónan væri fílinn í herberginu.

Bjarni sagði hins vegar óheilbrigt hve lág verðbólga væri á evrusvæðinu. „Ég lít á það sem sjúkleikamerki að það sé eftirsóknarvert að búa á gjaldmiðilssvæði þar sem Seðlabankinn, í þessu tilviki Evrópski seðlabankinn, hefur lofað að kaupa 70% af öllum ríkisútgefnum pappírum á næstunni — 70%. Ég lít á það sem mikið sjúkleikamerki að það séu ekki væntingar um vöxt. En það verður hverjum að sýnast sitt um þetta. Það er hins vegar ágætisheilbrigðismerki á Íslandi að hér eru væntingar um ágætan hagvöxt á þessu ári, ólíkt því sem gildir víða í Evrópu,“ sagði Bjarni.

Hænan eða eggið?

Þá væri rangt að kenna gjaldmiðlinum um verðbólguna. Launaþróun væri fremur um að kenna. „Gæti verið að það hafi eitthvað með launaþróun í landinu að gera? Gæti verið að það kunni að smitast út í verðbólgu þegar Ísland, eitt þeirra ríkja sem hv. þingmaður tiltekur í samanburði sínum, hækkar laun verulega í kreppunni? Kann að vera að það smitist smám saman út í álagningu í þjónustu og í vörukaupum og annars staðar? Ég held að það sé nú bara þannig. Mestu skiptir samt sem áður í augnablikinu að verðbólguvæntingar á markaði eru um að þetta sé lítið skot sem gangi til baka. Horft fram á við gerir allur markaðurinn á Íslandi ráð fyrir því að Seðlabankanum gangi vel að ná tökum á verðbólgustiginu og að verðbólga fari lækkandi á komandi misserum,“ sagði Bjarni.

Þorgerður steig þá aftur upp í ræðustól og spurði hvort kæmi á undan hænan eða eggið. „Er ekki tími til kominn, líka fyrir aðila vinnumarkaðarins í samvinnu við stjórnvöld, að fara að ræða gjaldmiðilinn okkar, eins og ég gat um áðan, fílinn í herberginu? Getur verið að launaþróunin sé með þessum hætti hér heima af því að við erum með þennan gjaldmiðil?,“ sagði Þorgerður og krafði Bjarna svara um framtíðarsýn hans í gjaldmiðlamálum.

Krónan þróast eins og vonast var til

Bjarni sagði hins vegar að krónan hafi gert það sem hún ætti að gera í hagsveiflum síðustu ára. „Hún gefur eftir til að skapa svigrúm og bæta samkeppnishæfnina og styrkist eins og hún gerði hér á árum þegar ferðaþjónustan var í hámarki. Það hafði tilætluð áhrif og hjálpaði m.a. til við að byggja upp mikinn gjaldeyrisforða á Íslandi. Staðan að baki íslensku krónunni hefur aldrei í lýðveldissögunni verið sterkari en einmitt nú,“ sagði fjármálaráðherra.

Verðbólgumarkmið Seðlabankans væri 2,5% en ekki við 0%. „Það væri heilbrigðismerki að við næðum að vera í kringum verðbólgumarkmiðið. Það er skrifað í lög og það er algjört grundvallaratriði að menn skilji að það er betra að vera við 2,5% en að vera í núlli. Það eru á alla kanta betri aðstæður.  Launaþróun hlýtur að hafa mjög mikil áhrif og ég er þeirrar skoðunar að við höfum að öllum líkindum tekið meira út í launaþróun á Íslandi en innstæða er fyrir í hagkerfinu,“ sagði Bjarni að lokum.