Stærsti stálframleiðandi Indlands, JSW, hefur neyðst til að draga úr framleiðslu sinni um 10% þar sem súrefni úr iðnaði er beint til Covid sjúklinga sökum skorts á súrefni til súrefnisgjafar. Indland glímir nú við kröftuga bylgju af Covid smitum en um 400 þúsund smit og nærri 4.000 dauðsföll greinast daglega. Financial Times greinir frá.

Stálframleiðandinn er nú stærsti birgir af fljótandi súrefni fyrir heilbrigðisgeirann í Indlandi, að sögn Sajjan Jindal, stjórnarformanns JSW, en fyrirtækið flytur um 1.200 tonn af gasinu á dag. Jindal gerir ráð fyrir að þetta ástand muni vara í nokkra mánuði.

Framleiðsluerfiðleikar JSW hafa leitt í ljós óvænta erfiðleika fyrir indverskan iðnað vegna Covid smitanna en greinendur höfðu búist við sterku hagkerfi og eftirspurn eftir samdrátt í fyrra. Sér í lagi voru miklar væntingar um góðar horfur í stáliðnaðinum en hlutabréf JSW höfðu hækkað um 90% í ár.