„Við erum að reyna að koma í veg fyrir skaða en það segir sig sjálft að eftir því sem tíminn líður þá getur það orðið erfiðara, þannig að staðan veldur okkur töluverðum áhyggjum en við reynum eins og við getum,“ segir Jakob Jóhannsson, krabbameinslæknir og yfirlæknir geislameðferðar krabbameina á Landspítalanum, í samtali við Morgunblaðið .

Verkfall geislafræðinga stendur yfir en það þýðir að fresta hefur þurft meðferð margra krabbameinssjúklinga frá því að vinnustöðvunin hófst. Í Morgunblaðinu kemur fram að sérfræðingar setjist niður á degi hverjum ásamt geislafræðingum, sem vinni samkvæmt undanþágu, og finni út hvaða sjúklingar séu í mestri þörf fyrir geislameðferð.

„Það halda áfram að streyma inn beiðnir því sjúklingarnir eru ekki í verkfalli,“ segir Jakob. Hann segir að um mánaðamótin verði staðan orðin alvarleg. „Í næstu viku, kannski í vikunni þar á eftir, þurfum við virkilega að fara að skoða hver staðan er orðin, upp á hvað við ætlum að gera með þennan hóp sem er að bíða - því hann getur ekki beðið endalaust, það eru hreinar línur.“