Persónuvernd hefur úrskurðað að Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hafi verið óheimilt að miðla upplýsingum um sjúkling sem þar hafði notið þjónustu til markaðsfyrirtækisins Capacent Gallup.

Einnig hafi verið óheimil öll vinnsla Capacent Gallup á þeim upplýsingum.

Gallup fékk lista um sjúklinga

Málavextir eru þeir helstir á vorið 2007 barst Persónuvernd erindi frá manni sem legið hafði á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri (FSA) og fengið eftir útskrift bréf frá sjúkrahúsinu varðandi könnun á þjónustu við sjúklinga í tengslum við útskriftarferli á lyflækningadeild.

Þar kom fram að Capacent Gallup myndi hafa samband við hann símleiðis vegna framkvæmdar könnunarinnar, en ef hann vildi ekki að fyrirtækið hefði samband við sig gæti hann haft samband við læknaritara hjá Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Í erindinu vék maðurinn að þagnarskyldu og því hvort veita mætti þriðja aðila vitneskju um hvort ákveðinn sjúklingur hafi legið á sjúkrahúsi. Í erindi hans sagði m.a.: „Þess vegna náði það athygli minni að Gallup væri allt í einu komið með kennitölulista yfir sjúklinga frá FSA sem sagði að ég hefði legið þar inni”.

Persónuvernd fékk m.a. þau svör frá FSA að sjúkrahúsið tæki þátt í tveimur verkefnum, öðru unnið af lyflækningadeild FSA en hitt þjónustukönnun sem unnin var af IMG Gallup (síðar Capacent Gallup). Einstaklingar sem legið höfðu inni á sjúkrahúsinu á Akureyri fengu send bréf frá Sjúkrahúsinu á Akureyri þar sem m.a. kom fram að gera ætti könnun á ýmsum þáttum varðandi þjónustu og viðmót á sjúkrahúsinu.

Í bréfinu kom einnig fram að starfsmaður Capacent Gallup myndi hafa samband við viðkomandi símleiðis, en ef hann vildi ekki taka þátt í könnuninni gæti hann haft samband við læknaritara á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Þá miðlaði sjúkrahúsið til Capacent Gallup bæði upplýsingum um alla sem fengu slík bréf og um þá sem höfnuðu þátttöku í könnuninni.

Persónuvernd segir m.a. í úrskurði sínum að ekki verði litið svo á að einstaklingur hafi samþykkt miðlun viðkvæmra upplýsinga með því að láta hjá líða að andmæla henni.