Samkvæmt nýrri skýrslu KPMG eru alvarlegir annmarkar á núverandi kerfi í kringum kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu. Þannig séu vinnubrögð og  fyrirkomulag Sjúkratrygginga Íslands við innkaup afar óskýr og fagþekking takmörkuð hjá stofnunni til þess að annast greiningar, gerð og eftirlit samninga. Þá skortir einnig greiningar og kostnaðarmat við ákvörðun um innkaup þjónustunnar.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um fund sem Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, Læknafélag Reykjavíkur, Félag sjúkraþjálfara, Samtök heilbrigðisfyrirtækja og Tannlæknafélag Íslands, standa fyrir í dag. Þar mun Svanbjörn Thoroddsen, stjórnarformaður KPMG, gera grein fyrir niðurstöðum skýrslunnar um fyrirkomulag í kringum kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu.

Sjúkratryggingar Íslands voru gagnrýnd í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis á síðasta ári en í henni segir meðal annars:

„Að mati Ríkisendurskoðunar eru annmarkar á starfsumhverfi, starfsemi og starfsháttum Sjúkratrygginga Íslands þegar horft er á gerð, framkvæmd og eftirlit með nokkrum kostnaðarsömustu samningum stofnunarinnar um heilbrigðisþjónustu. Einnig má draga í efa að samningarnir séu í öllum tilvikum hagkvæmir eða stuðli að skilvirkni heilbrigðiskerfisins í heild. Ekki verður því séð að þessir samningar nái því markmiði að kaup ríkisins á heilbrigðisþjónustu séu markviss líkt og lög um sjúkratryggingar áttu að ná fram.”

Niðurstöður skýrslu KPMG eru áþekkar niðurstöðu Ríkisendurskoðunar en í tilkynningunni segir að skýrslu Ríkisendurskoðunar vantað þó ýmis atriði og ekki síst að greina frá þeim alvarlegu afleiðingum sem þessir annmarkar geta haft fyrir þjónustuveitendur, en ekki síður fyrir þá skjólstæðinga sem reiða sig á þjónustuna.