Flestir kannast við ýktar sögur af skaðabótamálum í Bandaríkjunum þar sem einstaklingar hafa krafist skaðabóta fyrir allt mögulegt. Þær sögur eru að mörgu leyti ýktar og jafnvel hreinn uppspuni.

Skaðabótamál eru þó mjög algeng vestanhafs og fyrir löngu er orðinn til sérstakur iðnaður í kringum þau mál. Þar í landi er iðulega talað um lögmenn í sjúkrabílaeltingaleik (e. ambulance chacer), þ.e. lögmenn sem sérhæfa sig í skaðabótamálum.

Án þess að það uppnefni sé notað hér hafa lögmannsstofur sem sérhæfa sig í slysa- og skaðabótamálum verið nokkuð áberandi hér á landi síðustu tvö árin eða svo. Auglýsingar frá stofunum þess efnis að fólk sé hvatt til að athuga rétt sinn til slysabóta hafa verið áberandi.

Í auglýsingunum eru einstaklingar spurðir hvort þeir hafi lent í slysi á undanförnum árum og þeir upplýstir um að mögulega eigi þeir rétt á bótum vegna þess.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hefur tilkynningum vegna slysa til tryggingafélaganna fjölgað töluvert sl. tvö ár á meðan árekstrum í umferðinni hefur fækkað á sama tíma. Þá hefur tilkynningum vegna vinnu- og frístundaslysa einnig fjölgað umtalsvert á sama tíma.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í fréttaskýringu Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .