Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja segir ekki við öðru að búast en að fyrirtækið muni setja fram skaðabótakröfu gagnvart Seðlabankanum.

Viðskiptablaðið hefur fjallað um dómsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá í gær sem felldi úr gildi 15 milljóna króna stjórnvaldssekt sem Seðlabankinn lagði á fyrirtækið fyrir brot á gjaldeyrislögum.

Þorsteinn Már bendir á að menn hafi þurft að axla ábyrgð fyrir minni sakir að því er segir í Morgunblaðinu í dag, en fyrirtækið hefur þegar kært ákveðna starfsmenn bankans til lögreglu.

Í niðurstöðu Héraðsdóms segir að ákvörðun Seðlabankans um að hefja að nýju meðferð máls Samherja eftir að sérstakur saksóknari ákvað að fella niður sakamál vegna þessara meintu brota hafi ekki byggst á neinum nýjum gögnum.

Segir Þorsteinn Már ákveðna klíku innan Seðlabankans reka málið áfram „af ótrúlegum fantaskap.“