Fyrirtöku skaðabótamáls þrotabús Baugs Group á hendur Jóni Ásgeiri Jóhannessyni var frestað í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Málið gegn Jóni er það sama og riftunar- og skaðabótamál sem skiptastjóri þrotabúsins hefur höfðað gegn hluthöfum Baugs Group í tengslum við sölu félagsins á Högum til eignarhaldsfélagsins 1998 ehf fyrir 30 milljarða króna í lok júní árið 2008.

Skiptastjóri Baugs Group krefur Jón Ásgeir um 15 milljarða í skaðabætur vegna sölunnar. Það er sama upphæð og hluthafar Baugs Group eru krafðir um. Milljarðarnir fimmtán af söluverði Haga fóru samkvæmt málinu í að kaupa hlutabréf í Baugi af fjórum félögum í eigu stjórnarmanna Baugs. Þetta eru Gaums-félögin tvö, Gaumur og Gaumur Holding sem voru í eigu Jóns Ásgeirs og fjölskyldu hans, ISP eignarhaldsfélag, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, konu Jóns, og félaginu Bague SA, sem Hreinn Loftsson fer fyrir. Þrotabúið telur sig hafa orðið fyrir tjóni vegna viðskiptanna.

Málið gegn Jóni Ásgeiri snýr að skaðabótaábyrgð hans sem formaður stjórnar Baugs Group þegar hlutabréfin voru seld. Málin voru höfðuð í lok árs 2010 og þingfest í febrúar árið 2011. Ástæðan fyrir frestun í máli Jóns er sú að beðið er dóms í máli þrotabúsins gegn hluthöfum Baugs Group. Fimm vikur eru síðan málflutningi lauk í málinu. Búist er við að dómur falli á næstu vikum.