Í ljósi niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins má leiða líkur að því að ólögmætt afsláttarfyrirkomulag Sorpu bs. kunni að leiða til skaðabótaskyldu, að mati Ólafs Karls Eyjólfssonar, héraðsdómslögmanns, en grein eftir hann um málið birtist í Fréttablaðinu í dag.

Hann gerir sektarákvörðun Samkeppniseftirlitsins að umfjöllunarefni, en Sorpa var sektuð fyrir að veita stærstu eigendum sínum óeðlilega háa afslætti.

Segir Ólafur ekki ólíklegt að stærri viðskiptavinir félagsins kunni nú að hugsa sér til hreyfings og leiti réttar síns fyrir að hafa verið gert með ólögmætum hætti að ofgreiða urðunar gjöld. „Í ljósi þess að hið ólögmæta afsláttarfyrirkomulag Sorpu bs. viðgekkst á fimm ára tímabili, má gera ráð fyrir að þær upphæðir sem hér um ræðir kunni að nema tugum eða jafnvel hundruðum milljóna og skyldi engan undra ef endurgreiðslukröfum og skaðabótamálum kynni að rigna yfir Sorpu bs. á nýju ári,“ segir í greininni.

Þá vekur hann athygli á því að í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, að fram kemur að Sorpu bs. var kynnt frumniðurstaða í rannsókninni í apríl 2011, þar sem sagði að Sorpa bs. væri að öllum líkindum að brjóta samkeppnisreglur með afsláttarfyrirkomulagi sínu. „Þrátt fyrir þessa aðvörun hélt Sorpa bs. áfram að veita hina ólögmætu afslætti allt fram á úrskurðardag.“