*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 15. ágúst 2021 10:05

Skaðabótatilskipun ekki innleidd

Nokkrir innflutningsfélög íhuga hvort grundvöllur sé fyrir því að stefna Eimskipum til greiðslu bóta vegna samráðsmáls.

Jóhann Óli Eiðsson
Aðsend mynd

Í beiðnum innflytjenda til Samkeppniseftirlitsins er farið fram á að umrædd félög fái afrit af gögnum máls Eimskips í heild sinni, sé það svo að gögn um einstök félög sé að finna í rannsóknarupplýsingum. Til vara er farið fram á að eftirlitið afhendi gögn sem varða einstök fyrirtæki. 

„Umrædd samkeppnisbrot eru þess eðlis að þar eru bæði gerendur og þolendur. Þeir sem hafa þurft að þola brot hljóta að skoða bótarétt sinn gagnvart hinum brotlegu. Í ljósi þess hversu umfangsmikil brotin eru sem Eimskip hefur viðurkennt og yfir hversu langan tíma þau ná kann bótarétturinn að vera umtalsverður í ákveðnum tilvikum. Nú þegar eru nokkur fyrirtæki að skoða stöðu sína og búast má við að fleiri bætist við,“ segir Páll Rúnar M. Kristjánsson lögmaður félaganna.

Í íslenskum rétti þurfa aðilar sem telja sig hlunnfarna vegna samkeppnisbrota að sækja rétt sinn á grunni almennra reglna sem um það gilda í íslenskum rétti. Til er tilskipun frá Evrópusambandinu frá árinu 2014, í daglegu tali við kaffivélina kölluð skaðabótatilskipunin, sem ætluð er að tryggja rétt brotaþola í slíkum málum enda getur sönnunarstaðan verið gífurlega erfið í þeim. Nægir í því samhengi að skoða mál sem höfðuð voru í kjölfar niðurstöðu í samráðsmáli olíufélaganna á fyrsta áratug þessarar aldar. Síðan þá hafa að vísu tekið gildi ný fyrningarlög sem gera réttarstöðu brotaþola eilítið betri, það er að fyrningarfrestur byrjar ekki að líða frá hverjum og einum reikningi heldur frá þeim tíma þegar endanlegar lyktir máls liggja fyrir.

Til stóð að innleiða fyrrnefnda tilskipun í EES-samningin en það hefur ekki verið gert. Utanríkismálanefnd Alþingis fjallaði til að mynda talsvert um hana á árunum 2016 og 2017 en staðan er enn óbreytt. Ákveði félag eða einstaklingur að höfða mál til heimtu bóta vegna samkeppnisbrota er oftar en ekki farið fram á að dómkvaddur verði matsmaður til að meta umfang tjónsins. Slíkt er þó ekki nauðsynlegt en dæmi eru um að bætur hafi verið dæmdar að álitum án þess að matsgerð hafi legið fyrir. Í kjölfar olíusamráðsmálanna má til að mynda finna dóm Hæstaréttar þar sem einstaklingi, það er hefðbundnum neytanda, voru dæmdar bætur úr hendi olíufélags að álitum. Í fyrrnefndri tilskipun er meðal annars að finna ákvæði sem heimilar samkeppnisyfirvöldum að vera brotaþola innan handar við að færa sönnur á tjón sitt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Eimskip Samskip