Sævar Freyr hefur starfað hjá Símanum í 16 ár og gegnt starfi forstjóra frá 2008. Hann situr þó ekki auðum höndum utan vinnu. Sé nafni hans slegið upp á leitarvélinni Google á vefnum má meðal annars sjá að Sævar Freyr var eitt sinn kylfingur vikunnar hjá síðunni kylfingur.is.

Spurður um golfáhugann skellir Sævar Freyr upp úr. „Þetta var nú reyndar grín, í tilefni þess að ég var fertugur. Ég var þó byrjaður að spila golf en telst nú varla nema byrjandi. En vinir mínir höfðu mjög gaman af hæfileikunum og gerðu úr þessu mikinn skáldskap í tilefni afmælisins.“

Sævar býr á Akranesi og keyrir daglega til Reykjavíkur til vinnu. Á Akranesi tekur hann þá í félagsskap sem kenndur er við 71 árganginn og vinnur að fjölbreyttum málum, samfélaginu á Akranesi til góðs. Meðal þess sem hópurinn hefur tekið sér fyrir hendur er að endurvekja þorrablót Skagamanna.

Nánar er rætt við Sævar Frey um þátttöku hans í félagsstarfi á Akranesi, starfsferilinn hjá Símanum og fleira í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.