Eigendur Eðalfisks ehf. í Borgarnesi hafa samþykkt kauptilboð Brimilshólma ehf. í allt hlutafé félagsins. Að baki Brimilshólma stendur fjöldi fjárfesta frá Akranesi. Félagið keypti einnig Norðanfisk á Akranesi af Brimi á síðasta ári.

Eðalfiskur er 33 ára gamalt félag sem sérhæfir sig í framleiðslu, sölu og dreifingu á ferskum, frystum, reyktum og gröfnum laxaafurðum þar sem stór hluti afurða fyrirtækisins er seldur á erlendum mörkuðum. Félagið velti tæplega 600 milljónum króna árið 2019.

„Á bak við Brimilshólma, sem kaupir Eðalfisk, er öflugur hópur sem er að veðja á framtíðarsýn til sóknar á erlendum markaði og við höfum mikla trú á tækifærum á innanlandsmarkaði líka.  Þetta er sami hópur og kom að kaupum á Norðanfiski ehf. á síðasta ári sem er líka traust og gott félag sem þjónustar stóreldhús, verslanir og veitingastaði á innanlandsmarkaði. Ég vil þakka eigendum Eðalfisks fyrir faglega vinnu í þessu söluferli. ” segir Inga Ósk Jónsdóttir fyrir hönd Brimilshólma.

„Rekstur Eðalfisks á sér langa og farsæla sögu í Borgarnesi sem við erum stolt af og við fögnum því að kaupendur séu öflugur hópur og höfum við fulla trú að félagið muni halda áfram að vaxa og dafna með nýjum eigendum.“ segir Kristján Rafn Sigurðsson framkvæmdastjóri og einn núverandi eigenda Eðalfisks.

Tilboðið í Eðalfisk er þó háð tilteknum fyrirvörum af hálfu beggja aðila, meðal annars um niðurstöðu áreiðanleikakönnunar, samkvæmt tilkynningu frá félögunum. Vonast er til að úr því verði leyst á næstu vikum.

Í umfjöllun Fiskifrétta um kaup Brimilshólma á Norðanfiski á síðasta ári kom fram að Brimilshólmi væri nýtt eignarhaldsfélag í eigu tíu aðila sem allir ættu rætur á Akranesi. Inga Ósk Jónsdóttir og Gísli Runólfsson eiginmaður hennar yrðu stærstu hluthafarnir en auk þeirra væri félagið í eigu eftirfarandi: Bifreiðastöð ÞÞÞ, Eignarhaldsfélag VGJ í eigu hjónanna Eiríks Vignissonar og Ólafar Ólafsdóttur, hjónin Karen Jónsdóttir og Kristján Baldvinsson, Gestur Breiðfjörð Gestsson auk fjögurra jafnaldra úr árgangi 1971, þeirrra Sævars Freys Þráinssonar, Harðar Svavarssonar, Jóns G Ottóssonar og HH verktaks sem er í eigu Hannesar Birgissonar og Hjartar Lúðvíkssonar.