*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Innlent 2. júní 2020 12:45

Skaginn 3X fer í nýtt samstarf

Skaginn 3X skrifar undir söluhönnunarsamninga við rússnesk og suður-kóresk fyrirtæki.

Ritstjórn
Sjálfvirkir plötufrystar í sjávarútvegsfyrirtækinu Eskju
Aðsend mynd

Skaginn 3X skrifar undir söluhönnunarsamninga við rússnesk og suður-kóresk fyrirtæki. Félögin hyggjast nútíma- og sjálfvirknivæða fiskvinnslu sína til að auka hagræðingu, gæði og afrakstur.

Skaginn 3X mun sjá um ráðgjöf fyrir rússnesku félögin Magadanryba og Yuzhno-Kurilskiy Rybokombinat og snýr samningurinn að þróun hugvitsamlegra lausna í sjálfvirknivæðingu fiskvinnslu fyrirtækjanna.

„Með því að undirrita samning við Skagann 3X fá fyrirtæki í sjávarútvegi aðgang að hafsjó af upplýsingum og þekkingu í þróun og innleiðingu nútímalegra, skalanlegra vinnslulausna sem skila auknum afrakstri, gæðum og vinnsluhraða,“ segir Valeriy Akbashev fulltrúi Skagans 3X í Rússlandi. Hyeseung Fisheries í Suður-Kóreu hefur einnig gert samning við Skagann 3X um aðstoð við þróun nýrrar fiskvinnslu.

Skaginn 3X, sem breytti nafni sínu við sameiningu fyrirtækjanna Skaginn, 3X Technology og Þorgeir & Ellert árið 2017, framleiðir hátæknibúnað fyrir matvælavinnslu. Ræturnar liggja í sjávarútveginum en í dag þjóna lausnirnar fisk-, kjöt- og kjúklingavinnslu. Búnaður fyrirtækisins er framleiddur á Íslandi og seldur um allan heim. Félagið býður upp á úrval sérhannaðra kæli-, frysti- og þíðingarkerfa ásamt heildavinnslukerfum. Höfuðstöðvar félagsins eru á Íslandi en skrifstofur og samstarfsaðilar fyrirtækisins eru staðsettir um allan heim.

Stikkorð: Skaginn 3X