*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Innlent 10. ágúst 2018 14:37

Skaginn 3X ræður þrjá nýja starfsmenn

Hátæknifyrirtækið Skaginn3X hefur ráðið til sín þrjá unga sjávarútvegsfræðinga frá Háskólanum á Akureyri í söluteymi fyrirtækisins.

Ritstjórn
Pétur Jakob Pétursson, Freysteinn Nonni Mánason og Böðvar Styrmisson eru nýráðnir til sjávarútvegsfyrirtækisins Skagans 3x.
Aðsend mynd

Hátæknifyrirtækið Skaginn 3X hefur ráðið til sín þrjá unga sjávarútvegsfræðinga frá Háskólanum á Akureyri í söluteymi fyrirtækisins. Allir hafa þeir það sameiginlegt að hafa unnið lengi í sjávarútvegi, bæði til sjós og lands.

Pétur Jakob Pétursson er nýráðinn svæðissölustjóri fyrir Rússland og CIS

Pétur er með Bsc. gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri auk frekara náms í sjávarútvegsfræði, meðal annars frá Háskólanum í Tromso í Noregi. Pétur starfaði áður við innkaup og gæðastjórnun hjá Deutche See, en fyrir það starfaði hann sem gæða og framleiðslustjóri hjá DFFU og við gæða og sölumál hjá Samherja á Akureyri.

Böðvar Styrmisson er nýráðinn söluhönnuður fyrirtækisins

Böðvar er Grindvíkingur með Bsc. gráðu í Sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri, ásamt því að hafa stundað nám í tækniteiknun hjá Tækniskólanum. Böðvar starfaði áður á Fiskmarkaði Suðurnesja, en hann hefur lengi starfað í sjávaútvegi, m.a. sem sjómaður og í fiskvinnslum í landi.

Freysteinn Nonni Mánason er nýráðinn svæðissölustjóri fyrir Ísland

Freysteinn er uppalinn Ísfirðingur með Bsc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri. Freysteinn hefur lengi starfað í kringum sjávarútveg bæði á sjó og landi, meðal annars á Fiskmarkaði Suðurnesja, sem verkstjóri í fiskvinnslu og sem háseti og matsmaður á frystitogara.

"Það er umtalsverð aukning í umsvifum á okkar lykil mörkuðum þannig að þeir eru frábær viðbót við teymið okkar, ekki síst til að tryggja áframhaldandi gott samstarf við núverandi og nýja viðskiptavini," segir í fréttatilkynningu frá Skaganum 3X.