Skaginn 3X hefur samið um sölu á fjórum lausfrystum til Brasilíu. Söluverðið er um 600 milljónir króna og er þetta stærsti einstaki samningurinn sem fyrirtækið hefur gert um lausfrysta. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Reiknað er með að búnaðurinn fari héðan í tuttugu 40 feta gámum í mars og verði settur upp í vor. Reiknað er með að 10-15 manna teymi fari héðan til að setja búnaðinn upp. Kjötvinnslurnar sem frystarnir fara í eru inni í miðri Brasilíu, nálægt Amazon-fljótinu.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans á Akranesi og 3X Technology á Ísafirði, segir fyrirtækið hafa selt lausfrysti til Brasilíu fyrir sjö árum. Frystirinn lenti inni í brasilísku fyrirtækjasamsteypunni BRF, sem er sjöunda stærsta matvælafyrirtæki heims með 58 verksmiðjur víða um heim sem flestar eru í kjúklingaiðnaði. Hjá samsteypunni vinna um 100.000 manns.

„Þessi gamli frystir okkar hefur reynst afburðarvel frá upphafi. Þeir rannsökuðu hann niður í frumeindir og báru saman við aðra lausfrysta frá þekktum keppinautum. Hann sigraði þá alla og þeir ákváðu að kaupa af okkur fjóra nýja lausfrysta sem fara í tvær vinnslur. Það er gott að ná fótfestu í kjúklingaiðnaðinum,“ segir Ingólfur.

Lausfrystarnir eru um 16 metrar að lengd og fjórir metrar á breidd. Hver frystir afkastar um 3.500 kg af kjúklingabitum á klukkustund.