Skaginn 3X hefur samið við rússneska fyrirtækið Damate Group um sölu og uppsetningu á sjálfvirkri frystilausn fyrir kalkúnaafurðir. Söluverðmæti búnaðarins er um 350 milljónir króna og mun uppsetningu hans ljúka í haust.

Damate Group er stærsti framleiðandi kalkúnafurða í Rússlandi og rekur þar nokkrar verksmiðjur. Framleiðsla síðasta árs var um 131 þúsund tonn af kalkúnakjöti sem var um 48% aukning frá árinu 2018. Árið 2020, hyggst rússneska fyrirtækið auka afköst í allt að 155 þúsund tonn með opnun á nýrri vinnslustöð með sjálfvirkum búnaði.

„Í ár setjum við af stað kalkúnaframleiðslu sem getur unnið 214 tonn af vöru á dag.“ segir stjórnarformaður Damate Group, Naum Babaev. „ Til þess að ná slíkum aföstum þurfum við að innleiða sjálfvirkar lausnir í vinnslulínunna. Við erum sannfærð um að frystilausnin frá Skaganum 3X muni skapa góð afköst og tryggi um leið þá gæðastaðla sem við vinnum eftir.“

Sjálfvirkir plötufrystar í Eskju

Sjálfvirkir plötufrystar í Eskju
Sjálfvirkir plötufrystar í Eskju
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sjálfvirk frystilausn fyrir kalkúnamarning

MDM frystilausnin frá Skaganum 3X er algjörlega sjálfvirk frá innmötun að pökkun á bretti og viðheldur gæðum afurðarinnar allan vinnsluferilinn. Mikil og stöðug afköst ásamt sjálfvirkni tryggja mikinn sparnað í launakostnaði.

Búnaðurinn fyrir Damate Group er einnig sérstaklega hannaður fyrir frystingu á kalkúnamarningi sem ætlaður er í pylsuvörur og hálfunnar vörur úr hreinu kalkúnakjöti.

Kerfið samanstendur af tveimur sjálfvirkum plötufrystum með sjálfvirkri inn – og útmötun. Markmið hönnunar kerfisins var að það félli með auðveldum hætti inn í mjög afkastamikil vinnslukerfi og tryggi þannig meiri og jafnari vinnsluhraða en hefðbundin frystikerfi.

Ein af framleiðslustöðvum Damate Group í Rússlandi

Kalkúnaframleiðsla Damate Group
Kalkúnaframleiðsla Damate Group
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Þekkingin á meðhöndlun fiska nýtt fyrir alifugla

Fyrirtækið segir að hugmyndaauðgi, lausnamiðuð hugsun og áratuga reynsla í matvælavinnslu hafi lagt grundvöll að sérstöðu Skagans 3X og er fyrirtækið leiðandi í hönnun og framleiðslu á kæli– og vinnslubúnaði fyrir uppsjávariðnaðinn. Sú þekking og reynsla verði nú nýtt til hins ítrasta við framleiðslu á lausnum fyrir alifuglaiðnaðinn.

„Uppsjávarverksmiðjurnar okkar hafa fengið mikla athygli á Rússlands- og Asíumörkuðnum. Við höfum unnið með stærstu framleiðendum á uppsjávarafurðum í heimi og í samstarfi við þá hannað og framleitt hátækni lausnir með orkusparnað og sjálfvirkni í huga. Við ætlum okkur nú að uppfylla væntingar stjórnenda Damate Group með þekkingu okkar og reynslu að vopni,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri fyrir Rússland og Asíu hjá Skaganum 3X.

Skaginn 3X framleiðir hátæknibúnað fyrir matvælavinnslu. Ræturnar liggja í sjávarútveginum en í dag þjóna lausnirnar fisk-, kjöt- og kjúklingavinnslu. Búnaður fyrirtækisins er framleiddur á Íslandi og seldur um allan heim.

Skaginn 3X býður upp á úrval sérhannaðra kæli-, frysti- og þíðingarkerfa ásamt heildavinnslukerfum. Hugvit og útsjónarsemi hafa skilað fyrirtækinu fjölda einkaleyfa í gegnum tíðina. Allt sem fyrirtækið gerir er hannað með hámörkun vörugæða, afkasta og afraksturs í huga.

Höfuðstöðvar Skagans 3X eru á Íslandi en skrifstofur og samstarfaðilar fyrirtækisins eru staðsettir um allan heim. Þannig getur fyrirtækið unnið náið með viðskiptavinum sínum og skilað lausnum sem stuðla að virðisaukningu í framleiðslukeðjunni.