„Við erum stolt af því að eiga Mowi sem viðskiptavin og hlökkum til að takast á við þetta verkefni. Þetta kemur til með að verða stærsta laxaverksmiðjan sem mun nota þessa kælitækni, en við höfum einkaleyfi á henni,“ segir Magni Veturliðason, framkvæmdastjóri Skagans 3X AS í Noregi, í fréttatilkynningu fyrirtækisins.

„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir okkur þar sem þetta er enn ein staðfestingin á því að framtíðin í kælingu og varðveislu sjávarfangs liggur í þessari nýjung okkar SUB-CHILLING™.“

Magni telur mikil tækifæri vera í Noregi fyrir tæknilausnir Skagans 3X. Noregur er stærsti laxaútflytjandi heims en árið 2018 voru flutt út 1,4 milljónir tonna af ferskum laxi.

Eykur sparnað í flutningi

Kerfið mun hafa mikla þýðingu fyrir sparnað í flutningi auk þess sem vörugæði haldast lengur. Þar sem ís verður óþarfur má flytja allt að 20% meira af vöru fyrir sama verð. Gróft áætlað eru 300 þúsund tonn af ís flutt í bílum og 30 þúsund tonn með flugi árlega.

„Það er hvorki sjálfbært né svarar það kostnaði að flytja út ís á sama verði og fiskinn“ segir Magni. „Með því að fjarlægja ísinn úr kælikeðjunni myndast gífurlegt tækifæri til sparnaðar.“

Ørjan Tveiten, svæðisstjóri Mowi Nord segir kælikerfið minnka kolefnisfótspor í gegnum alla virðiskeiðjuna og geri laxaframleiðsluna sjálfbærari.