Aðalfundur Skagans ehf. á Akranesi, sem haldinn var fyrir stuttu, samþykkti heimild til stjórnar félagsins um að auka hlutafé félagsins um 17,5 milljón króna að nafnvirði. Að sögn Gríms Garðarssonar, framkvæmdastjóra Skagans, er hlutafjáraukningin hugsuð til þess að ljúka rannsóknarvinnu og markaðsstarfi á nýjum vörum sem félagið hefur verið að þróa. Samþykkt var að 5,5 milljónir króna færu til núverandi hluthafa en 12 milljónir til nýrra hluthafa. Að sögn Gríms er verkefnastaða félagsins mjög góð en undanfarið ár hefur verið notað til hagræðingar í kjölfar fjárhagslegrar endurskipulagningar. Sagði Grímur að félagið væri rekið með hagnaði um þessar mundir og mikil bjartsýni ríkti með rekstur þess.

Fyrr á árinu kynnti félagið nýja vinnslulínu. Um er að ræða vatnsskurðarvél sem vinnur með svokallaðri CBC tækni en hún er meðal annars fær um að skera beingarðinn í burtu. Vélin var kynnt fullþróuð á sjávarútvegssýningunni í september í Kópavogi en hún var fyrst kynnt á sjávarútvegssýningunni í Brussel í apríl síðastliðnum.