Íslenska tækni- og framleiðslufyrirtækið Skaginn hlaut í dag Útflutningsverðlaun forseta Íslands sem veitt voru í 29. skipti.

Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skagans veitti verðlaununum viðtöku við hátíðlega athöfn á Bessastöðum að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Íslandsstofu.

Tækninýjungar við íslausa kælingu

Skaginn hf. fær verðlaunin fyrir að hafa náð afar athyglisverðum árangri í að þróa, framleiða og selja tækjabúnað fyrir matvælaiðnaðinn, einkum fiskvinnsluna.

Fyrirtækið er í fremstu röð þeirra íslensku fyrirtækja sem hafa náð að brjóta sér leið inn á alþjóðlegan matvælamarkað með framleiðsluvörur sem í upphafi eru þróaðar í nánu samstarfi við íslensk framleiðslufyrirtæki.

Sérstaða Skagans hf. er fólgin í byltingarkenndum tækninýjungum hvað varðar íslausa kælingu á matvælum, sjálfvirkni og lausnum við pökkun og flutning á afurðunum.

Rekið í þremur einingum sem vinna saman

Stofnun fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 1985 þegar Ingólfur Árnason aðaleigandi Skagans hf. hóf að vinna við nýsköpun og þróun á vinnslubúnaði fyrir fiskiðnað.

Í dag er fyrirtækið rekið í þremur einingum sem eru Skaginn hf., Þorgeir og Ellert hf. og 3X Technology á Ísafirði. Þessi þrjú systurfyrirtæki vinna þétt saman að þróun, hönnun og framleiðslu og eru framleiðsluvörurnar kynntar og seldar undir sameiginlegu merki félaganna - Skaginn 3X.

Skaginn hefur selt vörur sínar víðs vegar um heiminn. Meginþunginn hvað fiskiðnað varðar er á svæðinu í kringum Norður Atlantshaf og hvað kjötiðnað varðar þá er hann mestur í Suður- og Norður-Ameríku.

Seldu frysti til Síle

Síðasti landvinningur fyrirtækisins var sala á frysti fyrir kjúklingavinnslu í Síle í Suður Ameríku. Á síðasta ári var m.a. unnið að uppsetningu á einni fullkomnustu uppsjávarverksmiðju í heimi, hjá Eskju á Eskifirði.

Um þessar mundir er unnið hörðum höndum við að ljúka þróun og uppsetningu á vinnsludekki og sjálfvirku lestarkerfi um borð í ferskfiskskip HB Granda.

Velta Skagans í fyrra var um 4,4 milljarðar króna og heildarvelta systurfyrirtækjanna þriggja um 6,0 milljarðar króna. Í heildina voru starfsmenn um 180.

Vigdís fékk sérstaka heiðursviðurkenningu

Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, var sæmd sérstakri heiðursviðurkenningu við sama tilefni.

Viðurkenninguna hlýtur hún fyrir að hafa með starfi sínu hafa borið hróður Íslands víða um heim og stuðlað að jákvæðu umtali um land okkar og þjóð.

Um útflutningsverðlaunin

Tilgangurinn með veitingu útflutningsverðlaunanna er að vekja athygli á  þjóðhagslegu mikilvægi gjaldeyrisöflunar og alþjóðlegra viðskipta og heiðra þá sem hafa náð sérstaklega góðum árangri í sölu og markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis.

Útflutningsverðlaunin eru nú veitt í 29. sinn en þau voru fyrst veitt árið 1989. Meðal annarra fyrirtækja er hlotið hafa verðlaunin í gegnum tíðina eru Bláa lónið, CCP, Hampiðjan, Trefjar ehf, Icelandair Group og Ferðaskrifstofa bænda, og á síðasta ári hlaut Nox Medical verðlaunin.

Úthlutunarreglur kveða á um að Útflutningsverðlaun forseta Íslands skuli veitt fyrirtækjum eða einstaklingum, íslenskum eða erlendum, fyrir árangursríkt starf að útflutningi á íslenskum vörum eða þjónustu á erlendum markaði.

Veiting verðlaunanna tekur mið af verðmætisaukningu útflutnings, hlutdeild útflutnings í heildarsölu, markaðssetningu á nýjum markaði, ásamt fleiru.

Í úthlutunarnefndinni sátu að þessu sinni:

  • Örnólfur Thorsson, frá embætti forseta Íslands, Runólfur Smári Steindórsson, frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands
  • Björgólfur Jóhannsson frá Viðskiptaráði
  • Þórunn Sveinbjörnsdóttir, frá Alþýðusambandi Íslands
  • Sigsteinn Grétarsson frá Íslandsstofu

Íslandsstofa ber ábyrgð á undirbúningi og kostnaði við verðlaunaveitinguna.