Skaginn 3X og Kælismiðjan Frost munu koma að uppsetningu og innleiðingu á vinnslu- og kælibúnaði fyrir rússneska útgerðar- og vinnslufyrirtækið Collective Farm Fishery by V.I. Lenin (RK Lenina). Sagt er frá þessu í tilkynningu frá félögunum. Verðmæti samkomulagsins er ekki tilgreint nákvæmlega en sagt að það „hlaupi á milljörðum íslenskra króna“.

Áætlað er að skipið, sem er sem stendur í smíðum í Yantar-skipasmíðastöðinni í Kalíníngrad, verði fullbúið og tilbúið til afhendingar í lok árs 2022. Togarinn mun geta framleitt allt að 450 tonn á dag og frystilestir munu rúma 5.100 tonn. Samkomulagið er liður í stefnu stjórnvalda í Rússlandi við að renna styrkari stoðum undir sjávarútveg í landinu og nútímavæða greinina.

„Við erum stolt af því að hafa fengið tækifæri til þess að taka þátt í nútímavæðingu sjávarútvegs í Rússlandi,“ segir Pétur Jakob Pétursson, sölustjóri Skagans 3X á svæðinu, í tilkynningunni. „Skipið er það stærsta sinnar tegundar í Rússlandi í 30 ár og framleiðslugetan um borð er 50% meiri en í öðrum sambærilegum rússneskum skipum.“

Samningurinn er gerður í samvinnu við rússneska arm Knarr Maritime, sameiginlegs markaðsfyrirtækis Skagans 3X, Frosts, Nautic, Brimrúnar, Naust Marine og verkfræðistofunnar Skipatækni.