Fjárfestingafélagið Magnuschess, í eigu Magnus Carlsen, heimsmeistara í skáki, hagnaðist um 40,8 milljónir norskra króna, eða um 600 milljónir íslenskra króna eftir skatta á síðasta ári. Afkoma félagsins nærri sjöfaldaðist frá fyrra ári þegar hún nam 80 milljónum íslenskra króna, samkvæmt fréttamiðlinum E24.

Magnus á Magnuschess ásamt föður sínum, Henrik Carlsen, sem er stjórnarformaður og framkvæmdastjóri félagsins. Félagið greiddi út 224 milljónir íslenskra króna á síðasta ári. Eigið fé Magnuschess nam 657 milljónum íslenskra króna í lok ársins.

Fjárfestingatekjur Magnuschess jukust úr 37 milljónum íslenskra króna í tæplega 413 milljónir á milli ára. Fram kemur að félagið hafi fjárfest um 312 milljónum íslenskra króna í hlutabréf og aðra fjármálagerninga á síðasta ári.

Skráði skákfyrirtækið sitt á markað í fyrra

Árið 2014 stofnaði Magnus Carlsen skákfyrirtækið PlayMagnus sem heldur úti ýmsum skákforritum, þar á meðal samnefndu forriti fyrir snjallsíma. Félagið var skráð  norska Euronext Growth markaðinn haustið 2020. Hlutabréfagengi PlayMagnus hefur fallið um 19% í ár og markaðsvirði skákfyrirtækisins nemur rétt yfir einum milljarði norskra króna, eða um 15,8 milljarða íslenskra króna.

Magnus er næst stærsti hluthafi PlayMagnus, í gegnum Magnuschess, og fer með um 9%. Hlutur hans í skákfyrirtækinu nemur því um 1,4 milljörðum íslenskra króna.