Skaðleysisyfirlýsingar frá fjármálastofnunum, sem tryggja að ekki verði beint kröfum á hendur ríkisins vegna gengislánafrumvarpsins, hafa ekki borist. Í tilkynningu frá efnahags- og viðskiptaráðuneytinu frá 22. október síðastliðnum segir að vonir standa til að slíkar skaðleysisyfirlýsingar liggi fyrir af hálfu fjármálastofnana í næstu viku. Það var í síðustu viku.

Þau svör fengust frá viðskiptabönkunum þremur, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankanum, að málið væri til skoðunar og væri ennþá í samningaferli. Engar frekari skýringar fengust á því hvers vegna skaðleysisyfirlýsingar hafi ekki verið gefnar út.

Aðspurður hvort slíkar yfirlýsingar séu ekki mikilvæg forsenda fyrir því að hægt sé að leggja fram frumvarpið segir Árni Páll ekki telja svo vera. Hann segist treysta því að bankarnir axli samfélagslega ábyrgð, líkt og sumir þeirra séu þegar farnir að gera, og taki ákvarðanir á viðskiptalegum forsendum. Ekki gangi að þeir mismuni viðskiptavinum með lögsókn gagnvart einum en ekki öðrum í sambærilegum málum. Því sé nauðsynlegt að lögin verði staðfest sem allra fyrst.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðins. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .