*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Innlent 21. desember 2017 15:35

Skammgóður vermir

Icelandair og flugvirkjar sömdu í vikunni. Flugmenn eru hins vegar með lausa samninga.

Ritstjórn

Samningar náðust í kjaradeilu flugvirkja við Icelandair aðfaranótt þriðjudags. Samningsaðilar segjast báðir hafa slegið nokkuð af kröfum sínum en virðast almennt ánægðir með samninginn.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins fagnaði því að samningarnir væru til 28 mánaða, miðað við þann tímapunkt sem samningar losnuðu og gildir hann því til ársloka 2019. Samningar náðust eftir tveggja sólarhringa verkfall flugvirkja. Þó er ljóst að með samningunum er aðeins tryggður stundarfriður.

Kjaradeila Icelandair og Félags íslenskra atvinnuflugmanna er komin inn á borð ríkissáttasemjara en lítið hefur miðað á þeim átta fundum sem haldnir hafa verið. Samningar hafa verið lausir frá 30. september.

„Það hefur í raun ekkert gerst hjá okkur þessar þrjár vikur sem deila SA og flugvirkja fór á þennan stað,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður samninganefndar flugmanna í deilunni. Hann segir að tíðinda af deilu flugmanna sé ekki að vænta fyrr en á nýju ári.

„Ég er hins vegar bjartsýnn á að menn læri eitthvað af því sem á undan er gengið. Það er ekkert eðlilegt að stjórnendur Icelandair geti ekki samið við starfsfólk sitt öðruvísi en að staðið sé í hótunum eða aðgerðum.“ Jón Þór vill ekki fara út í kröfur flugmanna í smáatriðum, en þær lúta að fleiri þáttum en launagreiðslum.

„Við erum fylgjandi því að halda stöðugleika á vinnumarkaði i og í verðlagi. Við höfum hins vegar lagt fyrirtækinu til gríðarlega miklar hagræðingar á undanförnum árum. Fyrirtækið er í miklum stækkunarfasa og flugmenn leggja mun meira af hendi en kveðið er á um í kjarasamningi. Við höfum tekið þátt í innleiðingu ýmiss hugbúnaðar- og tölvukerfa og fallist á ákveðna breytingu á vinnutíma til að mæta þeirri stækkun sem er í gangi á Keflavíkurflugvelli.