Viðskiptaráð hefur sent frá sér Nýja skoðun undir yfirskriftinni Skattalegar brotalamir – hindra atvinnuuppbyggingu. Þar segir að í kjölfar bankahrunsins hafi rekstrarskilyrði fyrirtækja versnað til muna. Viðskiptaráð telur að til að byggja upp trausta atvinnustarfsemi þá liggi fyrir að umhverfi til rekstrar þarf að vera hagfellt og stöðugt.

Á Íslandi var skattlagning til rekstrar hagkvæm með tiltölulega lágum og breiðum skattstofni með fáum frádráttarliðum. Hvati til að skattleggja tekjur á Íslandi var þess vegna mikill. Skattstofnar stækkuðu því og samkeppnishæf skattprósenta skilaði háum skatttekjum. Viðskiptaráð telur að það sé ekki hægt að segja það sama um viðamiklar breytingar sem átt hafa sér stað undanfarna mánuði sem „breyttu annars ágætu skattkerfi til muna.“

Viðskiptaráð segir að veruleg óvissa ríki í skattamálum fyrirtækja. Takmarkaðar upplýsingar um væntanlegar tekjuöflunarleiðir ríkissjóðs fyrir næsta ár þykja ekki bæta úr skák og eru taldar gera það að verkum að ómögulegt er að gera langtímaáætlanir. Viðskiptaráð telur að gengið hafi verið þvert á forsendur atvinnuuppbyggingar á Íslandi, sem getur reynt skaðlegt efnahagsþróuninni til lengri tíma litið.

Viðskiptaráð ítrekar skoðun sína á því að óvíst er að skattabreytingar muni skila tilætluðum árangri til að rétta af halla á opinberum fjárhag og telur að hætt sé við öndverðum áhrifum þannig að þær heildartekjur sem skattleggjast á Íslandi læki og skatttekjur minnki. Viðskiptaráð telur að leggja eigi höfuðáherslu á að skattkerfið verði áfram samkeppnishæft við skattkerfi annarra þjóða og styðji þannig við vöxt atvinnulífs og þá vinnumarkaðar.

Viðskiptaráð telur upp nokkur atriði sem það telur að hægt sé að bæta í dag. Það er meðal annars að afnema afdráttarskatta á vaxtagreiðslur til erlendra aðila, breyta reglum um skattskil og jöfnun yfirfæranlegs taps hvað varðar söluhagnað í tengslum við endurskipulagningu fyrirtækja, afnema skilyrði um jöfnun yfirfæranlegs taps þegar um er að ræða arðstekjur frá erlendum dótturfélögum og efla útgáfu skattyfirvalda á bindandi forúrskurðum um skattamál.