Skammtímafjármögnun ríkissjóðs í ríkisvíxlaútboði í gær er sú hagstæðasta sem ríkissjóði hefur staðið til boða innanlands. Greining Íslandsbanka fjallar um málið í dag og segir að ríkissjóður megi vel við una.

“Alls bárust 366 gild tilboð í ríkisvíxlaflokkinn RIKV 11 0415 að fjárhæð 25,5 milljörðum króna að nafnverði. Ákveðið var að taka tilboðum fyrir 21,7 milljarða króna að nafnverði á 3,4% flötum vöxtum. Lækkuðu vextir þar með um 80 punkta frá síðasta víxlaútboði sem haldið var fyrir mánuði síðan. Er þetta hagstæðasta skammtímafjármögnun sem ríkissjóði hefur staðið til boða innanlands og má hann því vel una við þessa niðurstöðu,“ segir í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka.

Erlendir aðilar stærstu kaupendur

Segir að ekki liggi fyrir að svo stöddu af hvaða tagi kaupendur ríkisvíxlanna voru í gær, en samkvæmt Markaðsupplýsingum sem Lánamál ríkisins sendu nýverið frá sér voru erlendir aðilar fyrirferðamestir í víxlaútboðinu sem fór fram í nóvember. Telur greining Íslandsbanka að sú hafi verið raunin í gær.

„Þannig keyptu erlendir aðilar 42% seldra bréfa í nóvemberútboðinu þar sem tilboðum var tekið fyrir 18,2 milljarða króna. Líkt og í víxlaútboðum undanfarið voru verðbréfasjóðir stærstu innlendu kaupendurnir  með 6,0 milljarða króna. Þessir aðilar, þ.e. erlendir aðilar og verðbréfasjóðir, eru jafnframt stærstu eigendur ríkisvíxla en í lok október áttu þeir fyrrnefndu 46% víxlanna sem voru þá útistandandi en þeir síðarnefndu 34%.“

Þá kemur fram að á gjalddaga í desember eru ríkisvíxlar að fjárhæð 20,1 milljarði króna. Eftir útboðið í gær hækkar því heildarstabbi útistandandi ríkisvíxla úr tæpum 70,4 milljörðum króna í rúma 72,0 milljarða króna.