Kaldbakur, fjárfestingarfélag Samherja, fer með 33,6% hlut í Styrk Invest og þar með má segja að óbeinn eignarhlutur Kaldabaks í FL Group sé tæplega 13% en stærsta einstaka eign FL Group er um 32% hluta í Glitni þar sem Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er stjórnarformaður.

Miðað við gengið 7,28 er verðmæti eignarhlutar Kaldbaks í Styrk rétt innan við 13 milljarðar króna. Þorsteinn Már, forstjóri Samherja, vildi ekki upplýsa hvernig Kaldbakur fjármagnaði kaup sín í Styrk Invest en aðspurður segir hann Glitni ekki hafa komið að því máli.

Þorsteinn Már, forstjóri Samherja, vildi ekki upplýsa hvernig Kaldbakur fjármagnaði kaup sín í Styrk Invest en aðspurður segir hann Glitni ekki hafa komið að því máli.

„Við teljum Kaldbak ágætalega öflugan. Og reynum að sníða okkur stakk eftir vexti,“ segir Þorsteinn Már þegar hann er spurður um fjárhagslegan styrk Kaldbaks og hvort félagið hafi sótt kaupverðið í eigin sjóði og um aðrar eignir Kaldbaks svarar Þorsteinn Már: „Við eigum hlutabréf í nokkrum félögum.“

Þorsteinn Már segir að það hafi verið tiltölulega skammur aðdragandi að aðkomu Kaldbaks að þessum viðskiptum. Hann bendir á að hann hafi áður átt mikil samskipti við Jón Ásgeir og fjölskyldu hans, m.a. í Kaldbak, og einnig hafi hann starfað með Jóni Ásgeiri í Íslandsbanka á sínum tíma.

„Þannig að við höfum starfað með þessu fólki og dugnaður og kjarkur hefur einkennt það. Ég lít á það sem tækifæri að starfa með þeim. Við Kristján Einarsson höfum starfað með þessu fólki áður og þau viðskipti byggðust á trausti og heiðarleika eins og ég hef áður sagt.“