Flugferð forstjóra norska olíusjóðsins með lúxus einkaflugvél og einkatónleikar með Sting þar sem hann var meðal viðstaddra hefur vakið upp ýmsar spurningar. Þannig er nefnilega mál með vexti að verðandi forstjóri olíusjóðsins, Nicolai Tangen, greiddi flugið undir forstjórann, Yngve Slyngstad. Slyngstad er líkt og áður segir forstjóri olíusjóðsins en Tangen stýrir í dag vogunarsjóðinum AKO Capital LLP sem hann stofnaði sjálfur. Eignir sjóðsins eru metnar á 16 milljarða dollara og er sjóðurinn með skráð aðsetur í skattaskjólinu Cayman eyjum. Stefnt er á að hann taki við stjórn olíusjóðsins í september. Bloomberg greinir frá.

Sökum þessa hafa ýmsar spurningar vaknað um hvernig staðið hafi verið að ráðningu Tangen og hafa yfirvöld þegar skipulagt neyðarfund þar sem farið verður yfir ráðningarferlið. Ráðning Tangen þótti áður en þetta mál kom upp nokkuð umdeild, en ekki þykir traustvekjandi að maður sem lifir jafn hátt og vogunarssjóðsstjórinn er þekktur fyrir að gera, skuli fá að stýra sjóði sem hefur að geyma meginþorra sparnaðar norsku þjóðarinnar. Ráðningin, sem tilkynnt var um í síðasta mánuði, var ekki síður óvænt í ljósi þess að nefn Tangen kom aldrei fram á opinberum lista yfir umsækjendur.

Seðlabanki Noregs, sem norski olíusjóðurinn heyrir undir, hefur birt langt yfirlit af ráðningarferlinu, þar sem m.a. er að finna öll tölvupóstsamskipti milli Slyngstad og Tangen. Þá hefur bankinn sagst ætla að greiða til baka þau útgjöld sem Tangen greiddi fyrir Slyngstad.

Greiddi eina milljón dollara fyrir Sting

Flugið og einkatónleikarnir umdeildu voru hluti af viðburði sem Tangen boðaði til í nóvember á síðasta ári og var haldinn í Bandaríkjunum. Þó nokkuð ku að hafa verið af nafntoguðu fólki úr norsku viðskiptalífi á viðburðinum og var tónlistarmaðurinn góðkunni, Sting, fenginn til að halda einkatónleika fyrir gesti fundarins. Tónleikarnir voru greiddir úr vasa Tangen, en talið er að hann hafi greitt Sting um eina milljón dollara fyrir að troða upp.

Norski Seðlabankinn segir að Slyngstad hafi mætt á viðburðinn til að halda erindi og hafnar því að hann hafi komið að ráðningarferlinu á nokkurn hátt. Þá hafi bankinn staðið straum af öllum ferðakostnaði Slyngstads í umræddri Ameríkuför, fyrir utan flug með einkaþotu aftur heim til Noregs, sem Tangen skaffaði. Segir bankinn að forstjórinn hafi farið í umrætt flug af „praktískum ástæðum."