„Meniga er í skýjunum yfir samstarfinu við Skandia,“ segir Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga en.Skandiabanken í Svíþjóð hefur opnað nýja kynslóð netbanka þar í landi sem gengur undir nafninu Smartbank eða snjallbanki. Bankinn byggir á fjármálalausnum fyrir einstaklinga sem Meniga á hugmyndina að og hefur þróað.

Meniga hlaut Frumkvöðlaverðlaun Viðskiptablaðsins á síðasta ári.

Fram kemur í tilkynningu frá Meniga að á meðal nýjunga í snjallbankanum sé sjálfvirk flokkun og greining útgjalda, sem sett er fram á myndrænan og skýran hátt. Viðskiptavinir geti með þessu móti fyrirhafnarlítið séð hversu miklu þeir eyða og í hvað. Snjallbankinn er fyrsti sinnar tegundar í Svíþjóð og gerir Skandiabanken ráð fyrir að allir helstu bankar landsins fylgi í kjölfarið.

Í tilkynningu frá Skandiabanken er haft eftir bankastjóranum Øyvind Thomassen, að um sé að ræða næstu kynslóð netbanka og muni hafa mikil áhrif á þær væntingar sem viðskiptavinir banka hafa til þeirra. „Það er einungis tímaspursmál hvenær aðrir sænskir bankar fylgja í kjölfarið“, segir hann. Bankinn hefur verið leiðandi í netbankamálum í Svíþjóð og má segja að hann hafi verið áskrifandi að verðlaununum „Netbanki ársins“ bæði í Noregi og Svíþjóð.

Vinna að landnámi í Rússlandi

Rúmur mánuður er síðan Skandiabanken í Noregi bauð viðskiptavinum sínum upp á heimilisfjármálalausn Meniga og eru notendur hennar nú 50 þúsund talsins. Lausnin er nú þegar aðgengileg 600 þúsund netbankanotendum Skandia í Noregi og Svíþjóð. Lausnin er aðgengilegar tæplega milljón notendum í þremur löndum.

Meniga vinnur að innleiðingarverkefnum með bönkum í Þýskalandi, Finnlandi og Rússlandi, sem mun ljúka síðar á þessu ári, að því er fram kemur í tilkynningu..