Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð eru að færast sífellt meira til hægri, segir bandaríska stórblaðið Wall Street Journal.

Á þriðjudaginn birtist frétt á vef blaðsins þar sem segir að Svíar hafi lært dýra lexíu fyrir um áratug síðan þegar dýrt velferðarkerfi og gjaldeyrishöft hafi rústað hagkerfinu þar. Eftir það hafi sænska ríkið dregið úr niðurgreiðslum vegna íbúðakaupa og öðrum niðurgreiðslum, skattar hafi verið lækkaðir, ávísanakerfi í skólum hafi verið kynnt til sögunnar og aukinn einkarekstur verið tekinn upp í heilbrigðiskerfinu. Ríkisstjórn Fredriks Reinfeldt forsætisráðherra hafi lækkað tekjuskatt á fyrirtæki úr 26,3% í 22%. Í september hafi tekjuskattur á einstaklinga verið lækkaður fimmta árið í röð.

Þá segir blaðið að í Danmörku hafi ríkisstjórn Helle Thorning-Schmidt lækkað eftirlaun almennings og hækkað eftirlaunaaldur á kjörtímabilinu. Þá hafi verið dregið úr atvinnuleysisbótum.