Mun meiri áhersla verður lögð á efnahagshlið nýs tölvuleikjar CCP en í hinum upphaflega EVE Online þrátt fyrir að viðskipti og framleiðsla sem slík séu þegar fyrirferðameiri í frumgerðinni en í flestum tölvuleikjum.
Framkvæmdastjórinn vonast til að umsvif þess hagkerfis sem mynda á undirstöðu leiksins verði umfram þjóðarframleiðslu Íslands og meira til, en áralangt þróunarferli tekur nú við eftir að CCP tilkynnti á þriðjudag að safnast hefðu 5,6 milljarðar króna til að fjármagna vinnu við leikinn, sem gerast mun innan EVE leikjaheimsins en hefur ekki enn fengið nafn.
„Við sáum fyrir okkur að efnahagsþátturinn yrði mikilvægur í EVE, en þetta varð miklu stærri og mikilvægari hluti af leiknum, og með tíð og tíma miklu stærra sjálfstætt hagkerfi, en við gátum séð fyrir okkur,“ segir Hilmar. „EVE Online er að mörgu leyti lokað hagkerfi og má segja undir fjármagnshöftum. Nú ætlum við að gera opnara hagkerfi þar sem flæði fjármagns er frjálsara.“
Nánar er rætt við Hilmar í Viðskiptablaði vikunnar sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.