*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 18. maí 2018 14:14

Skapa skort á bílastæðum í Skeifunni

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að á sama tíma og stórt bílastæði sé undir framkvæmdum verði annað lagt undir útimarkað.

Ritstjórn
Hagkaup í Skeifunni er opin allan sólarhringinn, en bílastæðin sem hverfa undir matarmarkaðinn eru við hlið Rúmfatalagersins sem er gengt versluninni.
Haraldur Guðjónsson

Eftir að tveimur stórum bílaplönum í Skeifunni í austurborginni í Reykjavík var lokað hafa margir verslunarmenn á svæðinu orðið ósáttir við skort á bílastæðum á svæðinu að því er Morgunblaðið segir frá.

Annars vegar er verið að tala um bílastæðið þar sem BT og Griffill var áður til húsa en þar er nú hafin uppbygging á nýju verslunarhúsnæði í eigu Haga líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá.

Á sama tíma bætist svo við áætlun Reykjavíkurborgar að taka bílastæðið við hlið Rúmfatalagersins undir götumarkað í sumar, eða frá 1. júní til 29. júlí, en bílastæðið hefur þegar verið afmarkað.

Um 150 stæði hverfa úr þjónustukjarnanum

Úlfar Hinriksson framkvæmdastjóri Suzuki er einn þeirra sem er ósáttur við að bílastæðinu hafi verið lokað en þar hafa fjölmargir starfsmenn í verslunum í kring lagt auk þess sem þar geymdi félagið uppítökubíla.

„Það var fyrirséð að það yrði bílastæðaskortur í Skeifunni í sumar vegna þess að verið er að byggja í Skeifunni 11 og þar fóru á bilinu 70 til 80 stæði undir þá starfsemi,“ segir Úlfar. „Svo hverfa þarna um 70 stæði til viðbótar og það veldur því að það eru engin bílastæði eftir fyrir kúnnann – ekki bara hjá okkur heldur hjá öllum hér í kring.“

Á bílastæðinu verður komið upp um tug gáma sem hýsa eiga matarþorp auk þess að strætisvagni verður komið fyrir til að hýsa kaffiaðstöðu á svæðinu. Skeifan hefur löngum verið aðgengileg þjónustumiðstöð fyrir alla austurborgina, m.a. vegna nægs fjölda bílastæða en Reykjavíkurborg hefur uppi áætlanir um þéttingu byggðar á svæðinu og fækkun bílastæða til lengri tíma.

Stikkorð: Suzuki Úlfar Hinriksson Skefian