Atvinnulíf í Eyjafirði stendur á traustum og rótgrónum grunni en í senn er það bæði fjölbreytt og framsækið. Mörg eyfirsk fyrirtæki horfa til frekari vaxtar og segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, ekki við það unað að sjálfsagðir innviðir eins og afhending raforku og flugsamgöngur standi vexti atvinnulífsins fyrir þrifum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar, segir að ekki verði við það unað að skortur á sjálfsögðum innviðum standi vexti atvinnulífsins í Eyjarfirði fyrir þrifum.

„Það er merkileg staðreynd og í rauninni algjörlega óforsvaranlegt að hér hefur orkuskortur staðið atvinnulífinu fyrir þrifum,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri akureyrar. Hér eru hjól atvinnulífsins yfirleitt á fullum snúning og mikil umframeftirspurn eftir raforku en hún fæst einfaldlega ekki afhent af því að hingað vantar tengilínur bæði til austurs og vesturs.

Ótrúlegt en satt þá hefur þetta verið þröskuldur á atvinnuuppbyggingu á svæðinu um árabil. Í dag er þetta algerlega óþolandi því  hér er sláttur á mörgum fyrirtækjum og þau í sóknarhug en mæta svo þessari hindrun. Við þetta er auðvitað ekki hægt að una og við höfum sett það á oddinn að finna lausn á málinu. Lausn er í sjónmáli og við leyfum okkur að vera bjartsýn á að þetta verði leyst núna í ári.”

Ásthildur segir fleiri mikilvæg mál brenna á bæjarbúum eins og meiri og betri samgöngur um flugvöllinn á Akureyri. „Eins og í orkumálinu þá blasir við hversu brýnt er að styrkja samgöngur um Akureyrarflugvöll. Lausnin liggur í augum uppi og þess vegna er undarlegt að við skulum enn þurfa að bíða eftir framkvæmdum. Ávinningurinn af því að stækka Akureyrarflugvöll er svo mikill og margvíslegur að enginn vafi leikur á því að allar umbætur og framkvæmdir við völlinn væru afar hagkvæmar.

Við höfum þurft að berjast fyrir þessu í alltof langan tíma. Og það eru ekki bara Akureyringar sem þurfa að standa í þessu stappi því sveitarstjórnir um allt Norður- og Austurland sjá hversu mikilvægt það er að beinu flugi til Evrópu sé komið á annaðhvort héðan frá Akureyri eða frá Egilsstöðum. Þetta er mál sem hefur verið í umræðunni í mörg ár, gott ef ekki áratugi, en ríkisvaldið sker fjárveitingar við trog og skellir við skollaeyrum þegar bent er á mikilvægi uppbyggingarinnar. Síðustu tvo vetur var beint flug í boði frá Akureyri til breskra borga á vegum ferðaskrifstofunnar SuperBreak og sú áætlun mun halda áfram næsta vetur. Núna í sumar flýgur flugfélagið Transavia einu sinni í viku til Rotterdam á vegum ferðaskrifstofunnar Voigt Travel og sömu aðilar munu jafnframt bjóða upp á beint flug tvisvar í viku til Amsterdam.

Það er algjört lykilatriði fyrir ferðaþjónustuna á landsbyggðinni að hefja hingað beint millilandaflug. Þannig tryggjum við betri nýtingu á þeirri miklu fjárfestingu í ferðaþjónustu sem hefur átt sér stað síðustu ár. Það er líka eðlilegt og skynsamlegt að dreifa ferðamönnum um landið í stað þess að hrúga þeim öllum á sömu staðina. Þannig minnkum við álag á staði sem margir eru nú þegar farnir að láta á sjá vegna of mikils ágangs og í leiðinni aukum við gæði ferðanna. Þannig að þetta er ekki bara hagsmunamál landsbyggðarinnar heldur líka umhverfismál og spurning um náttúruvernd. Þá bætir þetta ekki bara stöðu Akureyringa heldur styrkir ferðaþjónustuna á landsvísu og skýtur fleiri og traustari stoðum undir þessa mikilvægu atvinnugrein.

Í ljósi þess mikla og margvíslega ávinnings sem stækkun flugvallarins hefur í för með sér er kostnaðurinn við framkvæmdina hlutfallslega sáralítill. Ég trúi því einfaldlega ekki að stjórnvöld láti þetta frábæra tækifæri og mikilvæga mál sitja á hakanum öllu lengur,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .