Rannveig Rist, forstjóri Alcan á Íslandi, segir í viðtali við Viðskiptablaðið í dag að sú ákvörðun bæjaryfirvalda í Hafnarfirði að efna til íbúakosningar um framtíð álversins í Straumsvík skapi athyglisvert fordæmi fyrir erlenda sem innlenda aðila í atvinnurekstri á Íslandi sem vanir eru að fylgja ákveðnum lögboðnum ferlum þegar ákvarðanir á borð við stækkun og framkvæmdir eru teknar.

Rannveig segir jafnframt að athugasemdir íbúa hafi komið á elleftu stundu en undirbúningur fyrir stækkun álversins hófst árið 1999. "Hinn lögformlegi farvegur svona verkefna er skýr og felur í sér ítarlega kynningu með tilheyrandi kæruferli þar sem hægt er að leggja fram athugasemdir formlega. Í okkar tilfelli kynntum við sjónarmið okkar og fyrirhuguð áform ýtarlega þegar við fórum í gegnum umhverfismat árið 2002 og aftur þegar við fengum starfsleyfi 2005," segir Rannveig. Íbúakosningin í Hafnarfirði er hin fyrsta þar sem kosið er með beinum hætti um framtíð einstaks fyrirtækis í sveitarfélagi með þessum hætti.

Rannveig segir jafnframt að kosningin snúist um framtíð álversins í Straumsvík því að ef ekki verður af stækkun neyðist álverið til að flytja af landi brott. Mikið er í húfi fyrir Hafnarfjarðarbæ. Nú vinna 500 manns í Straumsvík þegar með eru talin þau störf sem umsvif álversins skapa er óhætt að þrefalda þá tölu. Þá er áætlað að stækkun Alcan skapi 1200 ný störf þar af 350 bein störf hjá fyrirtækinu og ríflega tvöfalt fleiri afleidd störf vegna aukinna umsvifa. Í heildina myndi Hafnarfjörður því missa 2750 störf ef álverið hyrfi á braut. Þá eru ótalin þau beinu gjöld sem Hafnarfjörður yrði af eftir stækkun sem eru samtals 800 milljónir á ári vegna álversins. Að lokum yrði Hafnarfjarðarbær af verulegum tekjum af útsvari starfsmanna sem greiðist til sveitarfélagsins og óbeinum tekjum af birgjum sem eiga mikil viðskipti við Alcan.