Ný stjórn var kosinn á hluthafafundi hjá OgVodafone í gær. Inn í stjórnina komu Skarphéðin Berg Steinarsson, Árni Hauksson, Pálmi Haraldsson og Einar Hálfdánarson. Vilhjálmur Þorsteinsson situr áfram í stjórninni. Út úr stjórn gengu Kjartan Georg Gunnarsson, Jón Pálmason, Kenneth Peterson og Bjarni Þorvarðarson. Á stjórnarfundi eftir fundinn var Skarphéðin Berg kosinn nýr formaður stjórnar.

Ljóst er að eftir þetta hafa þeir Baugs-menn öll tögl og haldir í félaginu í krafti 35% eignarhlutar Norðurljósa eins og kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu í dag. Í aðdraganda fundarins í gær gerðist það að Landsbankinn seldi 7% hlutafjár síns í OgVodafone og var fyrirtækið Riko Corp. kaupandi en það er skráð í Englandi. Aðaleigendur Riko Corp. eru Sigurður Ásgeir Bollason og Magnús Ármann sem fjárfestu á sínum tíma í Karen Miller verslununum sem þeir seldu inn í Oasis-keðjuna sem Jón Ásgeir Jóhannesson ræður. Þeir hafa því starfað náið saman undanfarið. Eftir viðskiptin er Landsbankinn skráður fyrir 7,77% hlut í OgVodafone eða 270.781.645 kr. að nafnvirði. Ef þessum hlutum sem eftir standa, hefur Landsbanki Íslands hf. gert framvirka samninga um sölu á samtals 52.450.099 kr. að nv., eða 1,5% af heildarhlutafé OgVodafone.

Á hluthafafundinum var einnig samþykkt 150 milljón kr. hlutafjárhækkun en 44 milljónir af því fara til að uppfylla samning vegna kaupa á Margmiðlun. Einnig er framundan kaup á Línu.net og verður hluti aukningarinnar notaður til þess.