Skarphéðinn Berg Steinarsson hefur tekið við starfi framkvæmdastjóra Eignarhaldsfélagsins Fengs af Pálma Haraldssyni. Samkvæmt tilkynningu til fyrirtækjaskráar tók hann við prókúruumboði hjá félaginu 31. maí í fyrra og formlega við framkvæmdastjórastarfinu 28. október. Pálmi Haraldsson, eigandi Fengs, hafði áður gegnt starfinu. Hann tók við starfi stjórnarformanns í stað Einars Þórs Sverrissonar, lögmanns og samstarfsmanns hans til margra ára, í kjölfar ráðningar Skarphéðins.

Einar Þór situr þó enn í stjórn Fengs sem meðstjórnandi. Þar situr einnig Sigurður G. Guðjónsson lögmaður. Skarphéðinn Berg hefur áður meðal annars starfað sem forstjóri Landic Property, framkvæmdastjóri Baugs og sem stjórnarformaður FL Group. Pálmi Haraldsson var um tíma einn af stærstu eigendum síðastnefnda félagsins.