Skarphéðinn Berg Steinarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Íshesta, en hann hóf þar störf í síðustu viku. Í janúar á þessu ári var Skarphéðinn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Ferðaskrifstofu Íslands, en því verkefni lauk í maí.

„Frá því í maí hef ég verið í mjög góðu sumarfríi og notað það m.a. til hestreiða,“ segir Skarphéðinn í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að Íshestar séu vel rekið fyrirtæki með áratugalanga sögu og að þar hafi vantað mann til að sjá um daglegan rekstur.

Eigendaskipti urðu á Íshestum árið 2012 þegar hópur fjárfesta keypti félagið af Einari Bollasyni. Nýi eigandinn var Bór ehf., sem stýrt er af Fannari Ólafssyni.