Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað Skarphéðinn Berg Steinarsson af kröfum þrotabús Baugs Group um riftun á tveimur greiðslum til Skarphéðins upp á rúmar 100 milljónir króna. Ekki var deilt um það að Skarphéðin hefði fengið greiðslurnar tvær afhentar, sú fyrri að fjárhæð 60 milljónir króna og sú síðari að fjárhæð 44,6 milljónir. Fyrri greiðslan var innt af hendi 3. september 2008 og sú síðari 27. október 2008. Um var að ræða samning milli Baugs og Skarphéðins um hlutafjárkaup í BGE Eignarhaldsfélagi ehf.

Undir rekstri málsins kom fram að Baugur hafði greitt féð inn á reikning BGE Eignarhaldsfélags, sem svo hafi greitt féð til Skarphéðins. Í bókhaldi félagsins sé þetta skráð sem lán til BGE Eignarhaldsfélags.

Niðurstaða dómsins var sú að greiðslurnar hafi ekki komið frá Baugi heldur BGE Eignarhaldsfélagi og því geti Baugur ekki krafið Skarphéðinn um greiðslu þeirra. Þá hafi komið fram að þrotabúið hafi lýst kröfum í þrotabú BGE upp á sömu upphæðir. Því sé verið að krefja tvo aðila um sömu greiðslu.